Andvari - 01.01.1999, Side 96
94
GUÐMUNDUR HÁLFDANARSON
ANDVARI
Mjólkursala og markaðsfrelsi
íhaldið er nægjusamt. Það gerir litlar andlegar kröfur. . . . Það japlar úrelt orðatil-
tæki, sem endur fyrir löngu voru lífsspeki byltingarseggja, sem það myrti eða ofsótti.
Trúarsetningar eins og „frjáls samkeppni“ og „framtak einstaklingsins“ voru einu
sinni fyrirlitlegur bolsevismi nokkurra hataðra byltingarhunda. Nú hefur reynsla
þjóðanna sýnt og sannað, að þetta er dauður nítjándu aldar bókstafur, útslitin flík,
sem mannkynið er löngu vaxið upp úr. Hún er jafnvel svo úrelt, að íhaldið er farið að
skilja það. . . . Nú talar enginn lengur um „frjálsa samkeppni“ og „framtak einstakl-
ingsins" nema afdalaviðrini eins og Morgunblaðið og Vesturland.
Svo lýsti Þórbergur Þórðarson viðhorfi sínu til frjálslyndis í anda Jóns Þor-
lákssonar í íslenskum stjórnmálum við miðjan þriðja áratuginn.50 I augum
Þórbergs var Jón því alls ekki „langt á undan sinni samtíð“, eins og Hannes
H. Gissurarson segir um hann í eftirmála útgáfu sinnar á ræðum og ritgerð-
um Jóns Þorlákssonar,51 heldur lítið annað en lélegur miðlungsmaður sem
boðaði úreltar kenningar og ýtti undir meðalmennsku í menningarefnum.
Afstaða Þórbergs til skoðana Jóns Þorlákssonar hefur sjálfsagt mótast að
nokkru leyti af því að Jón hafði beitt sér fyrir lækkun styrks til orðasöfnun-
ar rithöfundarins - með einstaklega fólskulegum og klunnalegum lygum að
sögn orðasafnarans52 - þótt Þórbergur hafi eindregið mótmælt aðdróttun-
um af þeim toga. Vantrú Þórbergs á frjálsri samkeppni var þó vitanlega
ekkert einsdæmi á þessum árum. Jafnvel þingmenn Sjálfstæðisflokksins,
sem hét því í stofnskrá sinni að „vinna í innanlandsmálum að víðsýnni og
þjóðlegri umbótastefnu á grundvelli einstaklingsfrelsis og atvinnufrelsis
með hagsmuni allra stétta fyrir augum“,53 reyndust síður en svo ginnkeyptir
fyrir hugmyndum fyrsta formannsins, a. m. k. þegar þeir töldu hagsmunum
umbjóðenda sinna standa ógn af samkeppni á frjálsum markaði. Þetta birt-
ist kannski með hvað eftirminnilegustum hætti í samþykkt laga um af-
urðasölu bænda árið 1934,54 en þar gekk meirihluti þingmanna flokksins
gegn fyrrverandi formanni sínum og studdi frumvörp samsteypustjórnar
Framsóknar- og Alþýðuflokks um miðstýrt skipulag á sölu og verðlagi
mjólkur- og sláturvara.55
Baksvið þessarar lagasetningar var tvíþætt. I fyrsta lagi höfðu innflutn-
ingshöft í viðskiptalöndum á tímum kreppunnar gert það að verkum að út-
flutningur kindakjöts dróst verulega saman, en kjötútflutningur hafði alla
tíð verið mikilvægur þáttur í íslenskum landbúnaði. Við það jókst eðlilega
kjötframboð á innanlandsmarkaði sem aftur leiddi til verðlækkunar sökum
þess að eftirspurn jókst ekki að sama skapi og framboðið.56 Með lögum um
fast verð og verðlagsuppbætur var bændum tryggt ákveðið verð fyrir vör-
una, hvað sem lögmálum markaðarins leið, og íslenskum neytendum gert