Andvari - 01.01.1999, Page 107
ANDVARI
HVAÐ ER RÓMANTÍK?
105
það sé túlkað, svo að greint sé frá reynslu bókmennta- og mælskufræðings-
ins Paul de Man?5 Verðum við að láta okkur nægja þann óljósa «grun» sem
skáld þýskrar rómantíkur gerðu iðulega að yrkisefni sínu, eða getum við
vænst þess að stóri sannleikurinn komi um síðir í leitirnar? Margir hafa að
vísu reynt að nálgast slíkan sannleika, t.d. með því að tína til ýmiss konar
fyrirbæri, ritverk og höfunda sem skáld og bókmenntafræðingar hafa ein-
hvern tíma auðkennt með orðunum rómantík, rómantískur eða róman-
tíker, en reynslan hefur því miður sýnt að þau fyrirbæri eiga sér ekki alltaf
einhvern augljósan samnefnara þegar vel er að gáð. Oft hafa þau jafnvel
gert lesendur ennþá ruglaðri í ríminu.
Þetta má útskýra með nokkrum dæmum úr íslenskri bókmenntasögu.
Jónas Hallgrímsson er venjulega talinn einn helsti «brautryðjandi róman-
tísku stefnunnar á íslandi», og þarf vart að treysta þá staðhæfingu mörgum
tilvitnunum. Hér verður látið nægja að vísa til nýlegra skrifa Páls Valssonar
í Islenskri bókmenntasögu III.6 En Halldór Laxness hefur líka verið orðað-
ur við rómantík: «Hann hefir alt af verið og mun alt af verða rómantískt
skáld», sagði Sigurður Nordal árið 1940 og hafði einkum í huga veruleika-
lýsingar Halldórs í sögunum um Sölku Völku, Bjart í Sumarhúsum og Ólaf
Kárason: «alt stækkar og ummyndast, tekur á sig nýja liti og líki í huga
hans».7 Einnig Thor Vilhjálmsson hefur margsinnis verið kallaður róman-
tíker. Það gerði t.d. Kolbrún Bergþórsdóttir í ritdómi sínum um Náttvíg ár-
ið 1991,8 og í grein frá 1971 vék Ólafur Jónsson sömuleiðis að «hinum stóru
rómantísku skáldritum Thors», Fljótt fljótt, sagði fuglinn og Ópi bjöllunn-
ar.9
Og nú er ef til vill ástæða til að staldra örlítið við og spyrja: Hvað eiga
þessir þrír íslensku höfundar sameiginlegt annað en að vera mikilsmetin
skáld? Varla nægir það til að gera þá rómantíska. Benedikt Gröndal hélt
því reyndar fram að rómantíkin væri sameiginleg eign allra höfuðskálda
vegna þess að hún lægi í eðli allra góðra skáldverka, sama frá hvaða tíma
þau væru.10 Án rómantíkur er enginn skáldskapur til, sagði hann iðulega.
En þó að Gröndal sé stundum talinn mesti rómantíker okkar íslendinga, er
olíklegt að þetta sjónarmið hans njóti almennrar hylli bókmenntafræðinga
nútímans, enda væru lýsingarorðin rómantískur og skáldlegur eða bók-
menntalegur þar með gerð að nokkurs konar samheitum. Samt koma um-
mæli hans algjörlega heim og saman við velþekktar hugmyndir Friedrich
Schlegels og annarra frumkvöðla þýskrar rómantíkur um aldamótin 1800
sem staðhæfðu oft að í vissum skilningi væri allur skáldskapur rómantískur
eða ætti að minnsta kosti að vera það.11
En hér dugir ekki að byggja alfarið á ummælum þeirra höfunda sem
fyrstir mótuðu hugtakið rómantík í nútímaskilningi. Þó að það sé vissulega
tilbúið fyrirbæri, var það ekki skapað í eitt skipti fyrir öll og einkaréttur