Uppeldi og menntun - 01.01.1998, Page 77
KRISTÍN UNNSTEINSDÓTTIR
mörgu stigum gullgerðarferlisins. í gullgerðarlistinni er eldurinn primus motor og
slokkni hann er allt glatað. Jung leit á gullgerðarlistina sem ferli innri sálfræðilegrar
þróunar í gullgerðarmanninum sjálfum og efnabreytingarnar og efnahvörfin sem
breytingar á persónuleika hans (Storr 1973:92).
Oftast stendur eldurinn fyrir tilfinningar og ástríður sem geta annaðhvort brunnið
til ösku eða varpað ljósi. í öllum töfrum slegnum og trúarlegum helgiathöfnum er
eldurinn gæddur heilögum eiginleikum sem búa yfir krafti til breytinga (von Franz
1989:100, 179). Án tilfinningahita verður hvorki þróun né nær manneskjan hærra
vitundarstigi. Þetta er engin ný kenning eða staðhæfing heldur hefur þessi vitneskja
fylgt manninum lengi. Þess sér víða stað, þannig segir til dæmis í Opinberunarbók
Jóhannesar 3,16 (Nýja testamentið og Sálmarnir 1994:437):
En afþví að þú ert hálfvolgur og hvorki heitur né kaldur, mun ég skyrpa þér út af
munni mínum.
I eldinum sameinast ljós og hiti og þessir þættir geta táknrænt staðið fyrir visku og
kærleika. I einu af indversku launhelgiritunum, Brihadaranyaka-Upanishad, segir að
maðurinn þurfi bæði á ytra og innra ljósi að halda (Launvizka Vedabóka. Uphanis-
hadur 1977:102);
„En þegar sólin er sezt, máninn er genginn undir, eldurinn slokknaður og ekkert
hljóð heyrist, hvað er þá Ijós mannsins?"
„Þá er sjálfið Ijós hans,... ogíIjósi sjálfsins vinnur maður oghvílist,fer og kemur."
„Hvað er sjálfið?"
„Það er lífsvitundin umvafin skynjunum; hún er Ijós í hjarta."
Áður en Helga nær endanlega valdi á eldinum þarf hún að ganga í gegnum þrjár
prófraunir sem eru undirstrikaðar með hamskiptum. Raunar má segja að áður en
að hamskiptunum kemur þreytir Helga sína fyrstu prófraun sem felst í því að
hleypa í sig kjarki og leggja af stað til risanna í leit að eldi. Gullintanna töltir í
hælinn sem kannski gerir útslagið. Helga þreytir því alls fjórar prófraunir og kemur
það vel heim og saman við þá skoðun von Franz að þrátt fyrir allt tal um þrítöluna í
ævintýrum sé fjórtalan nær lagi. Fyrst séu tekin þrjú skref og síðan eitt í viðbót sem
feli í sér lausnina (von Franz 1989:86-87). J. C. Cooper bendir á að þrítalan standi
fyrir virka sköpun, sem birtist til dæmis í fæðingu, lífi og dauða eða fortíð, nútíð og
framtíð, en fjórtalan tákni aftur á móti stöðugleika sem komi fram í árstíðunum
fjórum, fjórum heimshornum eða fjórum örmum krossins (Cooper 1993:223-224).
Umbreyting Helgu - gimbur, trafakefli og stjarna
Eins og fram hefur komið liggur leið mannsins til þroska gegnum einsömunarferlið að
mati Jungs. Leið Helgu karlsdóttur til einsömunar liggur eins og allra annarra gegnum
umbreytingu. í ævintýrinu birtist umbreyting hennar táknrænt sem gimbur, trafakefli
og stjama. Þegar þær Helga og Gullintanna eru komnar heim með glóðina úr helli
risanna og það er farið að rjúka og loga glatt í kotinu geltir Gullintanna úti á hlaðinu
og gefur þá skýringu að gýgur sé kominn' að garði. Þá segir Helga:
1 Samkvæmt íslenskri orðabók (Árni Böðvarsson 1976:210) merkir orðið gýgur tröllkona og er kvenkynsorð, en í
þessu ævintýri er bersýnilega átt við risa eða tröllkarl. í ævintýrinu notar skrásetjari orðið í karlkyni.
75