Tímarit lögfræðinga


Tímarit lögfræðinga - 01.12.1983, Page 20

Tímarit lögfræðinga - 01.12.1983, Page 20
Veigamikil rök eru hins vegar til þess, að líta beri á nefnda megin- reglu í upphafsákvæði 1. gr. sem grundvallarreglu, er eigi hafi aðeins sjálfstæða þýðingu með framangreindum hætti, heldur sé jafnframt til fyllingar öðrum ákvæðum 1. gr. Samkvæmt því ber að skýra ákvæði síðara málsl. 1. málsgr. og 2. málsgr. 1. gr. með hliðsjón af umræddri grundvallarreglu í upphafsákvæði 1. gr. Hún setur því þess vegna skorður, hve langt handhafar ríkisvaldsins geti gengið við takmörkun eignarréttar á grundvelli 2. málsgr. 1. gr., og hún takmarkar einnig, hve langt verður gengið með eignarnámi, enda þótt tilgreindum skilyrðum síðara málsl. 1. málsgr. sé út af fyrir sig fullnægt. Svo sem áður hefur verið drepið á, ber að skera úr því á grundvelli aðstæðna í hverju tilviki, hvort ráðstöfun komi svo hart niður, að brotið sé gegn vernd eignarréttar samkvæmt 1. gr. Greiðsla skaðabóta er meðal þeirra atriða, sem þar geta skipt meginmáli, eins og berum orðum var vikið að í fyrrgreindum dómi mannréttindadómstólsins í máli þeirra Sporrong og Lönnroths. Á það bæði við eignarsviptingar samkvæmt síðara málsl. 1. málsgr. og aðrar eignarskerðingar, sbr. t.d. 2. málsgr. 1. gr. Ef litið er á upphafsákvæði 1. gr. sem grundvallarreglu, er veiti vernd gagnvart hvers konar eignarskerðingum, hefur minni þýðingu, hvort skerðing flokkast undir eignarsviptingar, sbr. síðari málsl. 1. málsgr., takmörk eignarréttar, sbr. 2. málsgr., eða aðrar ráðstafanir, er varða eignir manna. Sérstaklega á þetta við, ef bætur til eigandans eru meðal þeirra atriða, sem hvað mesta þýðingu hafa við úrlausn máls hverju sinni, og síðari málsl. 1. málsgr. verður auk þess ekki skýrður svo, að fullar bætur skuli jafnan greiddar rétthöfum við eignarnám. 2. Eignarnám samkv. 1. gr. 1. samningsviðauka. A. Afmörkun eignai’náms. Svo er kveðið á í síðari málsl. 1. málsgr. 1. gr., að ekki megi svipta menn eignum sínum, nema í opinbera þágu (,,public interest“) og að fullnægðum skilyrðum laga og grundvallarreglna þjóðaréttar. Ekki er þarna nánar tilgreint, hvers konar eignarskerðingar er átt við, en þar er fyrst og fremst um að ræða skerðingar, sem teljast til eignarnáms eða þjóðnýtingar. Ákvæði 2. málsgr. 1. gr. gefa veigamikla vísbendingu um, hvers konar eignarskerðingar verði almennt ekki taldar til eignarsviptinga í skilningi 1. málsgr. sömu greinar. 1 2. málsgr. eru berum orðum nefnd- ar takmarkanir á nýtingu eigna og ráðstafanir til að tryggja greiðslu 222

x

Tímarit lögfræðinga

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Tímarit lögfræðinga
https://timarit.is/publication/586

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.