Tímarit lögfræðinga - 01.12.1997, Blaðsíða 18
þyrfti að vera til að mæla fullar bætur til tjónþola. í töflunum er miðað við
fimm möguleika á frádrætti vegna skatt- og eingreiðsluhagræðis til að ná
fram samanburði við eldra bótakerfi. Þeir frádráttarkostir liggja á bilinu 25-
40%. í þessum töflum hefur ekki verið tekið tillit til aldursleiðréttingar á
tekjuviðmiðun, sbr. síðar.
b) Með þessum hætti er sýnt nákvæmar en áður, að í raun þarf stuðullinn að
breytast til lækkunar ár frá ári með hækkandi aldri til að fá fram meiri
nákvæmni en 9. grein laganna gerir til að ákvarða lækkandi bætur fyrir
varanlega örorku með hækkandi aldri. Alveg er ljóst, að sú aðferð laganna að
mæla 25 ára gömlum manni jafnháar bætur og 17 ára gömlum manni er ekki
nákvæm, enda er í fyrra tilvikinu um að ræða færri ólifuð tekjuár, sem þarf
að bæta, en í síðara tilvikinu.
Jafnframt er þess að gæta, að í mörgum tilvikum mun tekjugrundvöllur
svo ungs tjónþola, hvort sem litið er til síðasta árs fyrir slys eða síðustu
þriggja ára, ekki gefa rétta mynd af þeim meðalárstekjum, sem vænta má að
hann hefði náð síðar á starfsævinni. Um þetta vísast til umfjöllunar um 7. gr.
laganna.
c) Ef litið er til dálks nr. 5 í fyrra dæminu að framan kemur í ljós, að
margfeldisstuðullinn þyrfti að vera 12,96 fyrir 17 ára gamlan tjónþola, 12,23
fyrir 25 ára tjónþola o.s.frv. í stað 7,5 eða 10,0 í báðum tilvikum skv.
lögunum. Fyrir 50 ára gamlan tjónþola yrði stuðullinn í þessu tilviki 8,00 í
stað 5,25 eða 7,0 samkvæmt gildandi skaðabótalögum, en þá hefur stuðull
þeirra verið lækkaður vegna hærri aldurs skv. ákvæðum 9. gr.
d) Ef litið er til síðara dæmisins, sem byggist á 6% afvöxtunarforsendu sést með
sama hætti, að stuðullinn hefði þurft að vera 10,46 fyrir 17 ára tjónþola,
10,05 fyrir 25 ára o.s.frv.
e) í töflunum er tilgreint með hve margföldum árslaunum (sbr. 7. gr.) þyrfti að
bæta framtíðartekjutapið. Við lægra örorkustig en 100% (fjárhagsleg örorka)
yrðu þessar tölur í hlutfalli við það.
f) Til frekari skýringar á nýjum margfeldisstuðli tókum við fram að notuð var
sambærileg tafla og þær sem tryggingafræðingar hafa notað við útreikninga
sína við mat á framtíðartekjumissi tjónþola. Taflan er miðuð við 4,5%
ávöxtun framtíðartekna. Notaðar eru dánar- og ævilengdartöflur áranna
1986-1990 og örorkulíkur líklega skv. sænskum reynslutölum.11 Er þessi
tafla sömu gerðar og töflur sem tryggingafræðingar nota við útreikninga sína
á framtíðartekjumissi, en þó er hér það nýmæli, að enginn greinarmunur er
gerður eftir kynferði eins og hefðbundið hefur verið að gera í slíkum töflum
fram til þessa.
Ákvörðun bóta fyrir tekjumissi framtíðarinnar hefur fram að gildistöku
laganna farið þannig fram að tryggingafræðingar hafa reiknað núvirði höfuð-
stóls tekjumissisins.
11 Alþingistíðindi 1995-1996. A-deild, bls. 3329.
242