Tímarit lögfræðinga - 01.04.2003, Blaðsíða 68
losnaði um og að lokum slitnuðu að öllu hin beinu tengsl við gömlu
nýlenduveldin tvö á Iberíuskaganum, Spán og Portúgal. Um skeið hefði með
talsverðum rétti mátt tala um hina „blóðugu heimsálfu“ meðan frelsisstríð
spænskumælandi manna var háð þar, alls staðar með ósigri hins gamla
heimsveldis en jafnframt með miklum fómum. I sannleika sagt hafa hin
spænskumælandi ríki Suður-Ameríku - í reynd flest ríki álfunnar önnur en
Brasilía, þar sem þjóðtungan er portúgalska" - aldrei borið sitt barr eftir þessi
miklu átök á fyrri hluta 19. aldar, og Brasilíumenn hafa heldur aldrei náð sér vel
á strik, þótt stjómarfars- og sjálfstæðissaga þeirra sé ekki að öllu leyti
sambærileg við hin löndin. Enn er stjómarfar fremur ótryggt og ókyrrð blundar
í þessuni löndum öllum, lýðræði (sem alls staðar ríkir þar nú að nafni til) á sér
sannarlega ekki djúpar eða sterkar rætur og vart er hægt að tala um lýðræðis-
hefðir í sama skilningi og við getur átt í sumum Vestur-Evrópuríkjum a.m.k. og
í ríkjum Norður-Ameríku. Uppreisnin gegn hinum spænsku nýlenduherrum var
aðeins upphaf fjölmargra uppreisna og byltinga sem ekki sér fyrir endann á. I
flestum ríkjanna hafa skipst á stjórnir íhaldssamra herforingja, sem tóku völdin
í skjóli vopnavalds, og lýðræðislega kosinna forystumanna sem hafa iðulega
ekki reynst starfi sínu vaxnir þegar til lengdar lét - spillingin hefur riðið húsum
undir hvaða stjómarfari sem boðið var upp á.
Allt er þetta reyndar alkunnugt en þó verður því vart neitað að fréttir þær,
sem þjóðir heims - t.d. Norðurálfumenn - fá af gangi mála í Suður-Ameríku,
eru oftar en ekki nokkuð „einlitar“. Hvað oft höfum við ekki fengið að fylgjast
með því, í nærmynd á sjónvarpsskjánum, hvemig her eða lögregla reynir að
bæla niður götuuppreisnir í Buenos Aires eða í öðrum stórborgum álfunnar,
skyggnst inn í ömurleg fátækrahverfi í fegurstu borg heims, Rio de Janeiro, og
orðið vitni að úrræðaleysi og eymd hinna örsnauðu manna þar og víða annars
staðar, séð eða heyrt í fréttum um sívaxandi glæpastarfsemi víða í þessum
löndum, fengið að sjá vegsummerki um hryðjuverkastarfsemi ýmissa minni-
hlutahópa, háværar og stundum blóðugar kröfugöngur mannréttindahópa eða
hlustað á fréttaskýringar um hyldýpi spillingar, kúgunar, ógnar og hörku, sem
virðist alls staðar blunda meðal þessara þjóða og brýst síðan út öðru hverju með
sprengiafli.
Við fáum hins vegar mun sjaldnar fregnir af hinu sem jákvætt er um mannlíf
þessara suðrænu þjóða, sem eru okkur svo fjarlægar öðrum þræði en geta þó
jafnframt verið svo nálægar fyrir tilstilli tækninnar. Hinar neikvæðu fréttir hafa
löngum mótað „ímynd“ Suður-Ameríku úti um heimsbyggðina og vissulega
ekki orðið þjóðum hennar til framdráttar. Oft hefur verið sagt, og sjálfsagt með
réttu, að flestir Bandaríkjamenn líti á Suður-Ameríkumenn sem „órólegu deild-
2 í þessari ritgerð verður ekki haft mið af rétti tveggja smáríkja í Suður-Ameríku, þ.e. ríkjanna
Guyana, þar sem enska er töluð og enskar réttarhefðir ríkja í verulegum mæli, og Surinam, þar sem
hollensk áhrif eru ríkjandi, og sama á við um Frönsku Guyana þar sem franskættuð menning og
réttarhefðir eru við lýði, enda er þar um að ræða landsvæði sem telst vera hluti af Frakklandi
stjómarfarslega.
62