Hugur - 01.01.1997, Blaðsíða 31
HUGUR 9. ÁR, 1997
s. 29-35
Anthony Kenny*
Descartes fyrir byrjendur**
Út allar miðaldir í Evrópu var Aristóteles hið óumdeilda kennivald í
vísindum; fyrir heilögum Tómasi frá Akvínó var hann heimspek-
ingurinn; fyrir Dante var hann „meistari þeirra sem vita.“ A fyrri
helmingi sautjándu aldar breyttu verk franska heimspekingsins René
Descartes þessu ástandi til frambúðar.
Descartes fæddist árið 1596, um það leyti sem Shakespeare var að
skrifa Hamlet. Siðaskiptin höfðu skipt Evrópu í herbúðir mótmælenda
og kaþólskra manna: sjálfur tók hann þátt í trúarbragðastyrjöldunum.
Þótt hann fæddist og dæi kaþólskur, bjó hann mestalla ævi í Hollandi
mótmælenda en ekki í heimalandi sínu, hinu kaþólska Frakklandi.
Descartes var að tvennu leyti ólíkur heimspekingunum sem voru
uppi á öldunum á undan honum. Hann var leikmaður bæði í hinni
klerklegu og faglegu merkingu. Allir hinir miklu heimspekingar mið-
alda höfðu verið kirkjunnar menn - prestar, biskupar, munkar - en
Descartes var hins vegar heimsmaður, „lausamaður" sem lifði á
eignum sínum. Og þótt allir miðaldaheimspekingamir hefðu verið há-
skólaprófessorar sem kenndu á fagmáli hélt Descartes aldrei á ævinni
fyrirlestur en skrifaði oft fyrir hinn almenna lesanda. Frægasta verk
hans, Orðrœða um aðferð, var ekki skrifað á latínu hinna lærðu heldur
á góðri tilgerðarlausri frönsku svo að „jafnvel kvenfólk,“ eins og hann
komst að orði, gæti skilið hana.
Descartes var mjög óvenjulegur snillingur. Nú á dögum eru það hin
heimspekilegu verk hans sem eru mest lesin. A hans dögum byggðist
orðstír hans ekki síður á hinum stærðfræðilegu og vísindalegu verkum
hans. Hann lagði grundvöllinn að hnitarúmfræði og „cartesísku“
* Höfundur þessarar greinar, Anthony Kenny, er mikilvirkur og mikilsvirtur enskur
heimspekingur sem hefur skrifað bókina Descartes: A Study of His Philosophy
(1968) og Wittgenstein (1973). Hann er hálærður í heimspeki miðalda og liggur
mikið eftir hann á þeim vettvangi. (Þýð.)
** Greinin var upphaflega erindi flutt í breska útvarpið (1978) og er prentuð í
ritgerðasafninu The Heritage ofWisdom eftir Kenny (1987). (Þýð.)