Hugur - 01.01.1997, Page 42
40
Vilhjálmur Arnason
HUGUR
Þetta lögmál hefur tvær hliðar, neikvæða og jákvæða, ef svo má að
orði komast.7 Hin neikvæða hlið kröfunnar er að nota ekki fólk eins
og tæki. Þetta felur það í sér að við verðum að veita sérhverri mann-
eskju svigrúm til að rækta sjálfræði sitt og haga sér í samræmi við
sína eigin dómgreind. Ég hef lýst þessari kröfu út frá hugmyndinni
um mannhelgi sem því svæði sem fullveðja einstaklingar verða að
hafa óskoraðan umráðarétt yfir.8 í ljósi þessa má segja að þetta
siðalögmál Kants komi orðum að undirstöðuatriði allrar réttnefndrar
frjálshyggju sem er að tryggja fólki griðasvæði þar sem það getur
verið óhult fyrir óréttmætri íhlutun annarra. Mannhelgin er vörðuð
mannréttindum og mannréttindakröfuna má einmitt nota til að sýna
hvernig alhæfingarlögmálið og lögmálið um virðingu fyrir mann-
eskjunni eru órjúfanlega tengd.
Hin jákvæða hlið kröfunnar um virðingu fyrir manneskjunni birtist
í því að við eigum ekki einungis að gefa fólki svigrúm til að lifa í
samræmi við eigin markmið, heldur einnig beinlínis að styðja það í
að ná markmiðum sínum. Kant kennir því þessa kröfu við náunga-
kærleika. Samkvæmt þessu dugar gagnkvæmt afskiptaleysi ekki í sið-
ferðilegu samfélagi heldur ber okkur að leggja eitthvað af mörkum til
að allir geti lifað með reisn. Þessi hlið lögmálsins um virðingu fyrir
manneskjunni rennir því stoðum undir kröfuna um félagslega
samhjálp og þá hugmynd að mannréttindi séu ekki bara frelsi undan
óréttmætri íhlutun heldur jafnframt tilkall til lágmarks lífsgæða.9
Kant færir rök fyrir því að hvort tveggja feli í sér siðareglur sem við
getum röklega og af fullri samkvæmni viljað að gildi sem almenn
lögmál.
3. Samtímasiðfrœöi í anda Kants: Rawls og Habermas
Til að sýna fram á þýðingu hinnar kantísku hugsunar í siðfræði fyrir
samtímann langar mig til að taka tvö dæmi um áhrifaríkar heimspeki-
kenningar. Hér er um að ræða réttlætiskenningu Bandaríkjamannsins
7 Sbr. túlkun Onora O'Neill, „Between Consenting Adults,“ Philosophy and Public
Affairs 14 (sumar 1985).
8 Siðfrœði lífs og dauða (Reykjavík: Rannsóknarstofnun í siðfræði 1993), s. 20.
9 Ég hef fjallað um þetta f grein minni „Mannhelgi og mannréttindi," Mannréttindi l
stjórnarskrá (Reykjavík: Mannrétdndaskrifstofa íslands 1994), s. 19-26.