Hugur - 01.01.1997, Síða 53
HUGUR
Samrœðusiðfrœði Jiirgens Habermas
51
skynsemishugtaki sem væri nógu víðtækt til þess að leysa þverstæð-
urnar í arfleifð eldri kynslóðar Frankfúrtarskólans.2 Samræðusiðfræð-
in sækir þannig bæði til engilsaxneskrar heimspekihefðar og megin-
landsheimspeki og er til vitnis um ögrandi samskipti þeirra í milli.3
Hún styðst m.a. við hugmyndir siðfræðinga eins og Marcus Singer,
Alans Gewirth, Kurts Baier, R. M. Hare og Stephens Toulmin, um
siðferðilegar rökræður og alhæfingar í siðfræði.4 Af siðfræðikenn-
ingum sem upprunnar eru í hinum engilsaxneska heimi hafa réttlætis-
kenning Johns Rawls og siðferðisþroskasálfræði Lawrence Kohlberg
haft mest áhrif á Habermas og Apel.
Hugmyndina að samræðusiðfræði má rekja til kenninga um sjálf-
ræði og „þjóðfélagssáttmálann" eins og þær hafa verið útfærðar í
skrifum Johns Locke, Jeans-Jacques Rousseau og ekki síst Immanuels
Kant. Að mati þessara höfunda eru stofnanir og reglur samfélagsins
því aðeins réttmætar að einstaklingar geti eða myndu ljá þeim sam-
þykki sitt af fúsum og frjálsum vilja eftir að hafa tekið þátt í einhvers
konar rökræðu. Apel notar hugtakið „fyrirmyndar samræðufélag“ (die
ideale Kommunikationsgemeinschaft) um slíkar rökræður en Haber-
mas kallar þær samræður (practical discourses). Apel og Habermas
eru sammála um, að eins og staða siðfræðinnar er í dag, séu siðferði-
legar alhæfingar í anda hins skilyrðislausa skylduboðs Kants einungis
mögulegar í ljósi rökræðna af þessu tagi. Með orðum Seylu Benhabib:
í stað þess að spyrja hvaða viðmið um hegðun einstaklingur gæti eða
myndi vilja að gilti fyrir alla, án þess að lenda í mótsögn við sjálfan sig,
er spurt: hvaða viðmið eða stofnanir myndu meðlimir fyrirmyndar
samræðufélags eða raunverulegs fallast á að stæðu fyrir sameiginlega
hagsmuni þeirra eftir þátttöku í vissri tegund rökræðu eða samræðna?5
2 Sjá R. Roderick, Habermas and the Foundations ofCritical Theory (New York: St.
Martin’s, 1986).
3 Sjá t.a.m. K. Baynes, „The Liberal/Communitarian Controversy and
Communicative Ethics," í Philosophy and Social Criticism, 14 (1988), s. 293-313.
4 Tilvísanir í verk þeirra er að finna aftanmáls f „Discourse Ethics,“ s. 109-115.
5 S. Benhabib, „In the Shadow of Aristotle and Hegel: Communicative Ethics and
Current Controversies in Practical Philosophy,“ í Situating the Self. Gender,
Community and Postmodernism in Contemporary Ethics (Cambridge: Polity Press,
1992), s. 24.