Uppeldi og menntun - 01.07.2008, Side 102
102
bReyTIngAR Á HlUTVeRkI SkÓlASTJÓRA í gRUnnSkÓlUm
Þá sýna niðurstöður að kynjahlutföll, aldursdreifing og menntun skólastjóra hefur
tekið umtalsverðum breytingum á síðustu árum. Ætla má að þessara breytinga gæti
í skólastarfinu þótt skólastjórar tjái sig ekki um áhrif þeirra enda ekki að þeim vikið
með beinum hætti í þessari rannsókn.
af framansögðu má ljóst vera að hlutverk skólastjóra er í sífelldri mótun. Starf
þeirra tekur stöðugum breytingum, umfangið eykst og eðli þess breytist. Ein mesta
breytingin felst í því aukna samráði og samstarfi sem skólastjórum er nú gert að eiga
við ýmsa hagsmunaðila innan skóla og utan. Þessir aðilar, svo sem kennarar og for-
eldrar, gera oft mótsagnakenndar kröfur til skólastjóra. í einhverjum tilvikum kunna
þær að stangast á við þann lagaramma sem skólum er gert að starfa eftir og þau gildi
sem skólastjórar kjósa að leggja til grundvallar starfi sínu. Þótt niðurstöður sýni að
skólastjórar vilji auka samstarf sitt við þessa aðila er ljóst að útfærslan er margvísleg-
um annmörkum háð. Á næstu árum munu skólastjórar því þurfa að leggja áherslu á
að skerpa enn frekar hið faglega forystuhlutverk sitt innan skólans. Jafnframt þurfa
þeir að efla tengsl skólans við hagsmunaaðila í ytra og innra umhverfi skóla og finna
samstarfi við þá farveg.
Skólar munu í auknum mæli þurfa að taka mið af síbreytilegu umhverfi sínu. Þar
þarf bæði að bregðast við nýjum aðstæðum sem kalla á breytingar í skólastarfi og
einnig að taka mið af niðurstöðum rannsókna á sviði náms, kennslu og uppeldis.
Meðal brýnna rannsóknarefna er að kanna hvernig taka megi á þeim mótsögnum sem
í framangreindum kröfum til skólastjóra felast. Slík greining er forsenda þess að unnt
sé að draga upp skýrari mynd en nú af hlutverki skólastjóra og þeim möguleikum
sem það gefur á því að bæta skólastarfið.
Rætt hefur verið um hvort gera eigi stjórnunarnám að skilyrði fyrir ráðningu
skólastjóra. Ekki er gert ráð fyrir því í nýjum lögum um grunnskóla og embættisgengi
kennara (Lög um grunnskóla, 2008; Lög um menntun og ráðningu kennara og skóla-
stjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, 2008). Mikilvægt er að fram-
haldsnám í stjórnun menntastofnana standi ungu fólki með góða grunnmenntun ætíð
til boða. Ef vel er að verki staðið í þessum efnum og kröfur um starfshæfni miklar má
gera ráð fyrir að faglegt atgervi skólastjóra grunnskóla aukist áfram á komandi árum
án þess kveðið sé á í lögum um stjórnunarnám skólastjóra.
Hér að framan var á það bent að hinn opinberi gildagrunnur skólastarfs kunni
að vera að breytast með vaxandi markaðsáhrifum. í þessu sambandi má minna á að
áhersla á samkeppni, skilvirkni og eftirlit hefur önnur áhrif á skólastarf en samvinna,
jafnræði og trúmennska. Sem forystumenn skóla verða skólastjórar að vera óhræddir
við að treysta eigin dómgreind og leitast við að hafa áhrif á mótun skólastefnu og
skólastarfs.