Tímarit Þjóðræknisfélags Íslendinga - 01.01.1950, Síða 22
FORMÁLI
Á þessu ári hefi eg hagað útgáfu Tímaritsins á nokkuð annan veg en tíðkast
hefir á undanförnum árum. 1 staðinn fyrir kvæði, sögur og greinar ýmislegs
efnis, hefi eg helgað alt ritið Sjötíu og fimm ára landnámi og andlegu starfi
Islendinga og niðja þeirra á þessum slóðum. Takmörkin varð samt að setja
einhversstaðar. Þess vegna eru engir taldir, hversu nýtir eða merkir menn
sem þeir voru eða kunna að vera, sem hafa unnið sér fé eða frama eða góðan
orðstír á sama vettvangi og aðrir borgarar landsins án tillits til þjóðernis eða
tungu, svo sem læknar, lögfræðingar, prestar, kennarar, stjórnfræðingar, vís-
indamenn eða tónlistarfólk. Að vísu koma til greina nöfn sumra slíkra
manna, en af öðrum ástæðum, svo sem sýnt er í söguþáttum þeim, er á eftir
fara.
Fyrsta greinin sviftir fortjaldinu og sýnir í fáum myndum inn á svið hins
mikla ævintýris—hins síðasta landnáms og bólfestu Islendinga í þessari álfu.
Þá koma hvað af hverju þættir þeirra manna og kvenna, sem eitthvað hafa
lagt af mörkum frá sjálfum sér í bókvísi, sagnagerð, ljóðaskáldskap, tónment
eða myndlistum. Þó að sjálfsögðu allir séu ekki taldir, sem ættu það skilið, þá
hygg eg, að þetta muni vera fullkomnasta og víðtækasta yfirlit yfir fagur-
fræðilegar tilraunir Vestur Islendinga á hinum umliðnu 75 árum — frá 1875
til 1950.
Varla þarf að taka það fram, að þetta hefði reynst ritstjóranum ofurefli, ef
hlutaðeigandi höfundar hefðu ekki brugðist svona vel við beiðni hans. Á
öðrum stað er bent á, að bókmenta ritgjörðirnar eru þýddar og auknar úr
hinum stóru ensku bókmenta sögum þeirra prófessoranna Stefáns Einarsson-
ar og Ríkarðar Beck. Þá kemur hér nýr rithöfundur fram á sviðið, frú Hólm-
fríður Danielson, sem er að vísu sí-skrifandi á enska tungu; ætti það að vera
hughreystandi fyrir þá, sem als örvænta um Islenskuna. Hún tók að sér með
litlum fyrirvara að skrifa um erfitt og áður ókannað viðfangsefni hér— listir
og listamenn.
Þá er önnur breyting—til betra eða verra, eftir því hvernig á það er litið. Eg
hefi nefnilega gefist upp við að samræma stafsetningu ritsins, og læt hvern
rithöfund halda sinni eigin stöfun. Eins og nú standa sakir eru aðeins tveir
eða þrír prentarar í öllum Vesturheimi, sem geta sett málið stórlýtalaust.
Þetta gæti líka skoðast sem tilvalin tilslökun “til að þóknast öllum, sem aldrei
koma sér saman”, eins og Gröndal sagði endur fyrir löngu.
Þá, sem sent hafa ritinu greinar, sögur og kvæði, bið eg velvirðingar, og lof-
ast til að sjá því borgið í næsta árgangi, hver svo sem ritstjórinn verður
G. J.