Tímarit Þjóðræknisfélags Íslendinga - 01.01.1960, Side 27
GUTTORMUR J. GUTTORMSSON:
Karlakór
Glymdrápuveður
vildargestir,
himinfljúgandi
um heim allan,
heyrið hve lágróma
lítill þröstur
heilsar íslenzkum
heiðasvönum.
Velkomnir hingað
frá heiðavötnum,
Islands ilmdölum
og anganhlíðum,
frá fjallalandi
til flötutúna
kjörlandsins austan
Klettafjalla.
Sléttan hálmbleik
að haustnóttum
faðminn breiðir
mót frægum gestum
— fær gyðjumynd
við þá gestakomu —
setur þá í öndveg
sér hið næsta
til hægri handar
til hins hæsta sóma.
Hvað er til umræðu
efst á baugi?
Kornhlöður fullar
með kúf upp af!
róstur milli ríkja
og ráðstjórna,
en viðskipti þjóða
öll vinsamleg.
Munið að engar
óvinaþjóðir
er að finna
í öllum heimi,
en flokkar manna
og fyrirliðar
ala á úlfúð
og ósamlyndi.
Reykjavíkur
Ljóst er á lýðmótum
listamanna
að þúsunda þjóðbrot
með þeli hlýju
heilsast sem bróðir
bróður mæti
og systir systur
í sannri vináttu.
Komi sú stund
að stjórn hvers lands
sé karlakór
sem þið kæru gestir;
listin ein
er þess umkomin
að sætta yfirvöld
allra landa.
Hér er hlutverk
af hendi að inna.
Söngvarar, þið
hafið sigurmáttinn,
sameinið þjóðir,
en sjáið um
að hver einasta þjóð
sé einstaklingur.
Frétzt hefur það
að þið fóstrazt hafið
við flóðdunur
á fjörusöndum,
andrúmsloft blóma
og birkiskóga
og árgalaraddir
frá reynilundum.
Og þið áhrifum mætt
frá eldjöklum,
fossaföllum
og flugstraumum,
Heklu, Geysi
og Grímsvötnum,
Dimmuborg, Kötlu
og Dyngjufjöllum.