Uppeldi og menntun - 01.07.2011, Síða 84
Uppeldi og menntUn/icelandic JoUrnal of edUcation 20 (2) 201184
horft Um öxl
Á svipaðan hátt töluðu Steinunn og Fríða þegar þær ræddu um það sem þær hefðu
lært sem hefði komið að gagni í grunnskólanum. Þær nefndu að þær hefðu lært að
haga sér á réttan hátt og lært að lesa og skrifa.
R.: Hverju voruð þið búnar að æfa ykkur í?
Steinunn: Að rétta upp hönd og bíða.
R.: Já?
Fríða: Já, og við vorum líka búnar að æfa okkur svona smá að lesa og reikna.
Á síðasta ári barnanna í leikskólanum höfðu þau tekið þátt í ýmsum viðburðum sem
höfðu það að markmiði að tengja skólastigin. Þau höfðu farið í heimsóknir í grunn-
skólann og annar leikskólinn hafði sérstaka dagskrá fyrir elstu börnin einu sinni í
viku. Þar var áhersla á kennarastýrð verkefni en ekki leik auk þess sem vettvangs-
ferðir voru mikilvægur þáttur í skipulagi verkefna fyrir elstu börnin. Hinn leikskólinn
var með aldursskiptar deildir svo elstu börnin voru alltaf saman í hóp. Leikskóla-
kennararnir í þeim skóla töldu hlutverk sitt ekki vera að undirbúa börnin sérstaklega
fyrir grunnskólann og sögðu að meginmarkmið leikskólans væri að vinna með sam-
skipti og félagslega þætti.
umræða
Markmið rannsóknarinnar var kanna hvernig grunnskólabörn minntust leikskóla-
dvalarinnar og hvaða þætti þau teldu að hefðu undirbúið sig best fyrir grunnskólann.
Þar sem sjónarmið barnanna voru könnuð fljótlega eftir að þau luku leikskóladvölinni
og eftir að þau höfðu fengið reynslu af því að vera í grunnskóla í nokkurn tíma höfðu
þau samanburð. Rannsóknin byggðist á viðhorfi til barna sem sterkra og hæfra þátt-
takenda og þeirri trú að hlusta beri á raddir barna og taka þær alvarlega (Christensen
og James, 2000; Clark og Moss, 2001; Corsaro, 1997; James og Prout, 1997; Mayall,
2000; Qvortrup, 1994). Til að fá fram sjónarmið barnanna voru hópviðtöl og teikn-
ingar barnanna notuð sem aðferðir við gagnaöflun. Fyrrverandi leikskólakennarar
barnanna voru meðrannsakendur og tóku viðtölin við börnin. Jafnframt var leitað
eftir sjónarmiðum þeirra, pælingum og viðbrögðum við samræðum barnanna.
Börnin voru áhugasöm um að taka þátt í að ræða um liðna tíma og teikna myndir
úr leikskólanum. Þátttaka leikskólakennaranna gæti hafa átt sinn þátt í því hversu
áhugasöm þau voru, því þeim fannst flestum spennandi að hitta gamla leikskólakenn-
arann sinn aftur. Viðtölin voru því ánægjulegir endurfundir þar sem börnin rifjuðu
upp atburði úr leikskólanum og minntu hvert annað á. Af því að leikskólakennararnir
þekktu börnin og leikskólann áttu þeir auðvelt með að bregðast við því sem börnin
ræddu um. Í samstarfi við leikskólakennarana mótuðu börnin merkingu og endur-
sköpuðu reynslu sína af leikskólanum. Rannsóknin sýnir að viðtölin við börnin í hóp,
þar sem þau sátu saman að teikna myndir frá leikskólanum, voru félagsleg upplifun.
Kostir hópviðtala geta hins vegar snúist upp í andhverfu sína ef ákveðin umræðuefni
verða ríkjandi og önnur gleymast eins og leikskólakennararnir bentu á þegar nokkrar
stúlkur rifjuðu upp árekstra við einn drenginn og annað féll í skuggann. Hafa ber