Uppeldi og menntun - 01.07.2011, Side 104
Uppeldi og menntUn/icelandic JoUrnal of edUcation 20 (2) 2011104
„mín köllUn er að hJálpa og reyna að láta gott af mér leiða“
fjölmörgum innan- og utanlandsverkefnum Rauða krossins, m.a. Vinalínunni, vinaneti
og söfnunarstjórn vegna verkefna innanlands og utan, ásamt stjórnarsetu. Þá hafi
hann í framhaldsskóla byrjað sem sjálfboðaliði innan skátahreyfingarinnar og orðið
þar foringi. Gunnar segist hafa verið vinafár á unglingsárum, en hann hafi eignast
stóran vinahóp bæði í starfi Rauða krossins og skátastarfinu.
Helga segist vera ákaflega félagslynd: „Ég er svona manneskjan sem var alltaf ein-
hvers staðar að gera eitthvað … í nemendaráði, árshátíðarnefnd, árbókarnefnd og öllu
þessu. Það var bara hnippt í mig og ég sagði bara allt í lagi.“ Hún fór í ungmennaráð
og Reykjavíkurráð og hefur tekið þátt í félags- og stefnumótunarstarfi ungs fólks á
vegum Reykjavíkurborgar. Helga segir sjálfboðaliðaþátttöku „ástríð[u]“ hjá sér „þótt
maður sé ekki endilega að vinna í þessu [þá stundina] þá er maður voðalega mikið að
pæla í þessu og alltaf eitthvað að hugsa um þetta“.
Tinna segist hafa kynnst æskulýðsfélagi kirkjunnar í tengslum við sjálfboðaliða-
störf móður sinnar í kirkjunni: „Ég er náttúrulega búin að vera í kirkju síðan ég var
eins árs eða eitthvað.“ Síðar hafi hún unnið sem leiðbeinandi í sjálfboðaliðastarfi fyrir
æskulýðsfélagið: „Ég var búin að vera svo lengi í æskulýðsfélaginu og þar er svo
skemmtilegt og skemmtilegt fólk … Við erum að vinna fyrir börn í útlöndum og leysa
þrælabörn á Indlandi og svona.“ Auk þess starfar Tinna í kirkjuhljómsveit sem spilar
reglulega til að safna fé fyrir hjálparstarf kirkjunnar. Sjálfboðaliðastarfið í æskulýðs-
félaginu hafi einnig gefið henni tækifæri til að taka þátt í ýmsum verkefnum: „Ég var
til dæmis fyrir jólin í Mæðrastyrksnefnd við að úthluta matarpökkum.“
Skúli hóf störf sem sjálfboðaliði í æskulýðsstarfi kirkjunnar 12 ára: „Ég var ekki
alveg með það á hreinu hvað þetta var fyrst þegar ég fór í þetta“ en segist „feginn …
það er snilld að vera í þessu“. Hann hafi viljað „kynnast fleirum og styrkja [s]ig félags-
lega“. Þetta hafi byrjað „á því að við fórum fyrst í kirkjuna út af fermingunni“. Það
hafi verið boðið upp á þátttöku í „hljómsveit og við strákarnir fórum og ætluðum bara
að hafa gaman af þessu en svo fór þetta út í alvarlega hluti [hjálparsöfnun fyrir fátæk
börn á Indlandi]“. Skúli hefur einnig setið í nemendaráði, nemendaráðgjöf og tekið
þátt í sjálfboðaliðastarfi í félagsmiðstöðinni í skólanum sínum. Hann segist hafa byrjað
í sjálfboðaliðastarfi fyrir hvatningu frá systur sinni og vinkonu hennar og „mamma
hefur oft sagt að ég skuli fara í þetta allt … Ég er ekki í íþróttum eða einhverju svo-
leiðis … þannig að hún vildi hvetja mig til að finna mér minn farveg“.
Eins og sjá má nefna ungmennin ýmis sjálfboðaliðastörf og margvíslegar ástæður
fyrir áhuga sínum á þátttöku í sjálfboðaliðastarfi. Flest nefna hvatningu úr umhverfinu:
heima fyrir (Skúli, Tinna), vinar (Ari), félaga (Helga) og jafnvel heimabyggðar (Gunnar).
Eigin lífsreynsla virðist líka hafa skipt máli. Piltarnir áttu það til dæmis sameiginlegt
að leita eftir félagsskap og vilja styrkja sig félagslega, en þeir höfðu m.a. upplifað
einelti, annaðhvort náins ættingja eða á eigin skinni. Málefnin sem unnið er að skipta
þau einnig máli og þau vilja gefa af sér. Afraksturinn nær bæði til nærsamfélagsins
(öll) og fjærsamfélagsins (Ari, Gunnar, Skúli, Tinna).
Hjá öllum ungmennunum kemur fram að með þátttöku í sjálfboðaliðastarfinu virðist
áhugi þeirra aukast samfara skýrari markmiðum og sterkari hugsjónum eins og sjá má
hér á eftir í umfjöllun um markmið þeirra og gildi.