Tímarit Máls og menningar - 01.12.1947, Blaðsíða 109
HIROSHIMA
203
hafði suðutæki. í garðinum fékk herra Tanimoto lítið særðar
grannkonur til að elda. Faðir Kleinsorge bauð Nakamura-fjöl-
skyldunni grasker, og þau reyndu að borða það, en gátu ekki
haldið því niðri. Alls nægðu hrísgrjónin til að metta um hundrað
manns.
Rétt áður en dimmt var orðið rakst herra Tanimoto á tvítuga
stúlku, frú Kamai, sem var næsti nágranni Tanimoto-fjölskyldunn-
ar. Hún húkti á jörðunni með lík litlu dóttur sinnar í fanginu.
Barnið hafði auðsjáanlega verið dáið allan daginn. Frú Kamai
spratt á fætur þegar hún sá herra Tanimoto og sagði: „Viljið þér
gera svo vel að reyna að finna manninn minn?“
Herra Tanimoto vissi að maðurinn hennar hafði verið kvaddur
í herinn einmitt daginn áður; þau hjónin höfðu verið hjá henni
kvöldið áður til þess að hugga hana. Kamai hafði gefið sig frarn
við aðalmiðstöð Chugoku-hersins — rétt hjá gamla kastalanum í
miðri borginni — þar sem fjögur þúsund hermenn höfðu aðsetur.
Eftir hinum mörgu særðu hermönnum að dæma sem herra Tani-
moto hafði séð um daginn, gizkaði hann á að hermannaskálarnir
hefðu orðið fyrir miklum skennndum af hinni dularfullu árás á
Hiroshima. Hann vissi að hann hefði engin tök á að finna mann
frú Kamai, þótt hann leitaði hans, en hann vildi hugga hana. „Eg
skal reyna,“ sagði hann.
„Þér verðið að finna hann,“ sagði hún. „Honum þótti svo vænt
um barnið okkar. Hann verður að fá að sjá hana einu sinni enn.“
III
Frekari atriði eru í rannsókn
Snemma að kvöldi þess dags þegar sprengingin varð, fór japansk-
ur herbátur hægt upp og niður hinar sjö árkvíslar í Hiroshima. Við
og við nam hann staðar til þess að gefa tilkynningu — fyrir utan
troðfull sandrif, þar sem sært fólk lá í hundraðatali; við brýrnar,
þar sem aðrir hópar höfðu safnazt saman; og að lokum, þegar
rökkva tók, andspænis Asano-garðinum. Ungur liðsforingi stóð í
bátnum og hrópaði gegnum hátalara: „Verið þolinmóð! Spítala-
skip er á leiðinni til að veita ykkur hjálp!“ Þessi gerðarlegi bátur