Tímarit Máls og menningar - 01.12.1947, Blaðsíða 126
220
TÍMARIT MÁLS OG MENNINGAk
leit svo á, að sjúkleiki og spilling þessarar menningar stafaði frá rangri og
óhæfri forystu. Hann vildi slíta af sér viðjarnar, rísa öndverður gegn hinum
fáu útvöldu, sem afvegaleiddu fjöldann, afhjúpa blekkingar þeirra, feyskjur
og andlega spákaupmennsku, en bregða jafnframt á loft merki nýrrar og betri
lífsskoðunar. Til þess að geta tjáð hug sinn sem áhrifaríkast varð hann að
skapa hetju, — svo heilbrigða, hjartahreina og óflekkaða, að hún hefði rétt til
að meta og dæma, svo styrka og raddmikla, að hún ætti áheym vísa. Þetta
tókst honum vissulega. Hetjan er tónskáldið Jóhann Kristófer.
En hver er hann þá í rauninni og úr hvaða þáttum er hann ofinn? Ég hygg,
að bezt fari á því, að lesendur reyni sjálfir að svara slíkum spurningum, enda
má gera það á marga vegu. Hinsvegar leikur lítill vafi á því, að saga Beethov-
ens hefur verið Rolland næsta hugstæð, þegar hann skóp hetju sína. Þess
vegna mætti segja með nokkrum rétti, að Jóhann Kristófer sé Beethoven og
Rolland sameinaðir, — með öðrum orðum: fulltrúi hins dýrmætasta í þýzkri
menningu og franskri á átjándu og nítjándu öld. Þó fer því fjarri, að skýring
þessi sé fullnægjandi, því að Jóhann Kristófer er hvorki bundinn rammlega
við ákveðin þjóðerni né afmarkað menningartímabil, eins og gleggst má
ráða af sívaxandi vinsældum, sem hann hefur notið í flestum löndum heims
hátt á fjórða tug ára. Ef til vill grundvallast þær framar öllu á því, að hann
er persónugervingur hins sanna, frjálsa listamanns, skapandi og leitandi andi,
einlægur, göfugur og jötunefldur, en jafnframt svo mannlegur, að hann hlýtur
ávallt að ná til hjartans.
Ég veit ekki, hvort þessi óður lífs og listar, frelsis og mannúðar verður í
raun réttri talinn til skáldsagna. Sennilega er farsælast að fara að ráðum
höfundarins og gera enga tilraun til að draga verkið í dilk einhverrar sérstakr-
ar bókmenntagreinar. Þegar við hittum mann, leggjum við ekki í vana okkar
að spyrja, hvort hann sé ljóð eða skáldsaga, minnir mig að Rolland segi
forspjalli að einum þætti verksins. Og sannarlega er Jóhann Kristófer maður
í tignustu merkingu þess orðs. Við fylgjum honum um langan og örðugan veg
frá vöggu til grafar. Þrengingar, vonbrigði, sorgir og þjáningar mæða án af-
láts á brjósti honum, en engu að síður heldur hann ótrauður áfram á braut
sinni og glatar hvorki lífstrú sinni né mannkærleika. Að vísu munar oft litlu,
að hann láti bugast og gefist upp, en um það er lýkur hefur hann náð því
marki, sem hann keppti að, gert skyldu sína við samtíð og framtíð. Þegar
hann deyr á síðustu blaðsíðum bókarinnar, hefur hann öðlazt nýtt líf í hjarta
lesanda.
Efni verksins er svo margþætt og yfirgripsmikið, að býsna torvelt mundi
reynast að rekja það, enda skal þess ekki freistað hér. Þó get ég ekki stillt
mig um að drepa á örfá atriði. Þrjú fyrstu bindin, Dagrenning, Morgunn og
Unglingsárin, sem nú eru komin út á íslenzku í einni bók, fjalla öll um
bernsku og æsku Jóhanns Kristófers í smáborg einni við Rín. Þar semur
liann fyrstu tónsmíðar sínar, vinnur fyrstu sigrana á listabrautinni, eignast
fyrsta vininn, verður fyrst ástfanginn og bergir í fyrsta skipti á kaleik sorgar-