Tímarit Máls og menningar - 01.12.1947, Qupperneq 125
UMSAGNIR UM BÆKUR
Romain Rolland: JÓHANN KRISTÓFER I—III.
Þórarinn Björnsson íslenzkaði. — Útgefandi:
Ileimskringla, Rvík 1947.
Eg hef hvorki í hyggju að skrifa ritdóm um Jóhann Kristófer né freista
þess að gera viðhlítandi grein fyrir höfundi hans, franska snillingnum og
mannvininum Romain Rolland. Til allrar hamingju eru sum skáldverk svo
stórfengleg, margþætt og fjölskrúðug, að fásinna væri að reyna að brjóta þau
til mergjar í stuttum ritdómi. Þeir, sem góðum bókmenntum unna, njóta
slíkra skáldverka án nokkurra leiðbeininga, hverfa til þeirra aftur og aftur
og sjá þau ætíð í nýju ljósi. Þeim hefur stundum verið líkt við löng fljót og
djúp, sem falla um ólík héruð til sævar. f hvert skipti sem við göngum með-
fram þeim birtast okkur óvæntar sýnir. Speglanir, myndir og litir, sem við
sáum ekki í gær, heilla okkur svo mjög í dag, að við kysum helzt að mega
dveljast hjá þeim fram til sólarlags. Og væri þá ekki óþarft og hjákátlegt að
hafa með sér leiðarvísi, þar sem lesa mætti ýmiss konar reglur og kenningar
um það, hvernig við ættum að hlusta á straumhljóðið, hvar við ættum að
staldra við í þessum töfraheimi, hvers við ættum að leita og hvað okkur bæri
að hafa liugfast? Ég er hræddur um, að flestir gleymdu að hlýðnast slíkum
leiðarvísi eða þættust vel geta komizt af án hans. Ef við hins vegar reyndum
að fara eftir honum, væri mjög undir hælinn lagt, hvort við yrðum nokkru
bættari. Hann gæti jafnvel villt um fyrir okkur og orðið okkur til tjóns. En því
að eins sting ég niður penna að þessu sinni, að ég hef þráfaldlega óskað þess,
að helztu rit Rollands yrðu þýdd og gefin út á íslenzku. Nú þegar Jóhann
Kristófer hefur loks verið leiddur inn úr dyrunum, get ég ekki stillt mig um
að bjóða hann velkominn, því að göfugri gest hefur naumast borið að garði
íslenzkra lesenda.
Þetta einstæða verk kom upphaflega út í tíu bindum á árunum 1904—12.
Höfundinn skorti tvo í fertugt, þegar hann sendi frá sér fyrsta bindið. Hann
var þá prófessor í tónlistarsögu við Sorbonne-háskóla. En áður en hann hóf
að rita um barnæsku og unglingsár Jóhanns Kristófers í Þýzkalandi, hafði
liann þegar samið allan miðkafla verksins, þar sem segir frá fyrstu kynnum
söguhetjunnar af franskri menningu eins og hún birtist í París. Kafli þessi er
að öðrum þræði hörð gagnrýni og ádeila á stefnur þær, sem þá voru efst á
baugi í listum og menntum. Rolland hefur skýrt frá því, að hann hafi verið
mjög einmana og þvingaður um þær mundir og fundið sárt til þess, eins og
margir aðrir, að hann átti enga samleið með menningu samtíðar sinnar. Hann