Tímarit Máls og menningar - 01.11.1974, Qupperneq 20
Tímarit Máls og menningar
vandamál og hefir einkanlega í loftinu valdið mengun, sem ógnar með því
að breyta mjög lífsskilyrðum fyrir jurtir, dýr og menn á stórum svæðum.
Uraníum er ekki ótæmandi á jörðinni og veldur enn um langa framtíð svo
mikilli mengun sem orkugjafi vegna hinna geislavirku úrgangsefna, að þessi
orkulind færir okkur ekki úr sjálfheldu nema skamman tíma. Von iðnaðar-
samfélagsins er vetnisorkan, en því er spáð í dag, að hún verði ekki komin í
gagnið fyrr en kringum 2050.
Hvernig eigum við svo að breyta iðnaðarsamfélaginu, svo að það tortímist
ekki? Hvernig eigum við að loka hinu opna kerfi, sem ég minntist á áðan?
Þetta er sú spurning, sem leitar æ fastar á þá, sem gera sér ljóst, hve langt
mannkynið er komið inn í sjálfheldu sína. Hér er ekki við tæknilegan vanda
að glíma, heldur pólitískan vanda í víðasta skilningi þess orðs. En lausnin
á vandanum hefir líka þriðju hliðina, sem er nánast siðferðilegs eðlis.
Breyta verður um stefnu á mörgum sviðum.
í fyrsta lagi verður að koma til alger hugarfarsbreyting og nýtt mat á
því, sem gildi hefir í lífinu. Hið svonefnda neyzluþjóðfélag, sem er afsprengi
iðnþróunarinnar, einkennist af sem mestri eyðslu á öllum hugsanlegum
varningi, sem einhverjum svonefndum framtaksmönnum hugkvæmist að
framleiða. Sá er mest metinn, sem berst mest á og kaupir mest. Neyzluþjóð-
félagið einkennist af kapphlaupi kringum gullkálfinn og efnisleg gæði. Gild-
ismat þessa þjóðfélags verður að hörfa, en það þýðir breytta lifnaðarhætti,
sem eru í átt til þess, sem áður var: Til einjaldara lífs. Síðustu ár sýna mjög
breytt gildismat fólks víða um heim. Hippahreyfingarnar eru öfgafyllsta
dæmi þess.
í öðru lagi verða menn að tileinka sér gerbreytt sjónarmið í hagstjórn og
efnahagslegum markmiðum. I þessar tvær aldir, sem við kennum við nútíma
iðnþróun, hefir ríkt sú stefna í efnahagsmálum vestrænna iðnríkja, að pen-
ingagróði væri hvati efnahagslegrar framvindu, sú stefna, sem í lok seytjándu
aldar eignaðist vígorðið Laissez faire: Að leyfa kröftum efnahagslífsins að
fara sínu fram, án afskipta ríkisvaldsins. Eftir lok fyrri heimsstyrjaldarinn-
ar er farið að taka upp markvissar hagstjórnaraðferðir lil þess að auka
framleiðslu sem mest, fyrst í Sovétríkjunum, en eftir síðari heimsstyrjöldina
í öllum hinum iðnvædda heimi, hvað svo sem efnahagskerfið hét. Þá verður
aukning hagvaxtar hið allsráðandi markmið í efnahagsmálum beggja megin
við járntjaldið.
Á síðasta áratug gerist svo það, að fram á sjónarsviðið koma hagfræð-
ingar, sem efast um réttmæti þessa markmiðs. Líklega er rödd hins heims-
10