Tímarit Máls og menningar - 01.11.1974, Qupperneq 98
Tímarit Máls og menningar
umræður um þessi mál geti orðið til bóta, því að sumt virðist vera óljóst
fyrir mörgum, og langt er frá því, að þeir sem lærðir eru, séu þar allir á einu
máli.
Þeim er ef til vill nokkur vorkunn, sem slitið liafa kröftum sínum í áratugi
við að kenna misjafnlega næmum og misjafnlega námfúsum nemendum allar
þær reglur, sem lögboðnar eru við stafsetningu íslensks máls. Mig grunar, að
sumum þeirra finnist, að ef þær reglur séu lagðar niður eða þeim breytt, sé
verið að óvirða og gera að engu allt þeirra lífsstarf. Þetta er auðvitað hinn
mesti misskilningur. Þó að þær reglur heíðu mátt vera nokkuð öðruvísi og
auðlærðari, er ekki þar með sagt, að allt það erfiði hafi verið unnið fyrir gýg.
En ef það skyldi nú samt vera, að nokkuð af því striti, bæði kennara og nem-
enda hafi verið barátta við vindmyllur, er áreiðanlega heppilegast að kannast
við það, því að þá er mál að linni.
Það hefur lengi verið mín skoðun, og hún hefur styrkst með aukinni
reynslu, að færa ætti stafsetningu nokkuð nær framburði en nú er, en jafn-
framt að leggja aukna rækt við framhurðinn, sem að mínu viti er í afturför.
Ég tel jafnvel, að komið gæti til mála að staðla framburð að vissu marki,
þótt fara verði þar með gát. Helst kæmi þá til greina að taka upp norðlenska
harðmælisframburðinn og hv-framhurðinn sunnlenska. Auðvitað bæri svo að
halda í heiðri leifum af fornum íslenskum framburði, þar sem hann er enn
við lýði, þótt ekki þyki fært að staðla hann fyrir alla þjóðina. Einkum ber þó
að sporna við öllum breytingum, sem nú sækja á, svo sem grenningu sumra
sérhljóða. Veðurspáin spáir til dæmis einatt suðustanátt. - Alkunn er líka
sagan um drengina, sem komu frá prófi og ræddu um, hvort þeir hefðu verið
lakkaðir eða hakkaðir.
Við þurfum að gera okkur ljóst að íslensk tunga er málið, sem við tölum,
en ritmálinu er fyrst og fremst ætlað að vera tákn hins talaða orðs. Einnig
mætti benda á, að nútíma stafsetning okkar er aðeins 45 ára gömul, og þá
var íslensk stafsetning færð fjær framburði, en verið hafði um skeið, og fyrir
þann tíma kunnu margir að tala og rita íslenskt mál ekki lakar en nú gerist.
Þar hygg ég blöðin okkar megi bera órækast vitni. Núverandi stafsetning
þarf því ekki að vera neinn helgidómur, sem ekki megi hagga við.
Það má ef til vill teljast nokkuð djarft af lítt lærðum seminarista að kveða
upp dóm á svona fræðilegu sviði. En eftir 45 ára kennslustarf, hef ég fengið
nokkra reynslu í því, hvernig það er að kenna þessa námsgrein, hve langan
tíma það tekur og hve árangursríkt það strit er. En hvað við kemur hinni
fræðilegu hlið, þá er það þó nokkurs virði, að vera í góðum félagsskap. Varla
38