Tímarit Máls og menningar - 01.12.1979, Page 54
Tímarit Máls og menningar
fyrst á markaðinn í september í haust. Myndi svona bók seljast meðal
enskumælandi manna?
I sumar dvaldist ég rúma tvo mánuði í Austur-Skaftafellssýslu i því
skyni að safna gögnum til sögu sýslunnar. Þar er ég fæddur og upp alinn.
Miklum lífshættum reyndi guð mig með á þessu ferðalagi. Hann opnaði
glugga himinsins, og ár og fljót ultu kolmórauð niður hverja fjallshlíð og
undan hverjum skriðjökli, sem í The Basic Dictionary heitir River of ice!
Fimm daga hélt ég kyrru fyrir á óðalsetri Brennu-Flosa í Svínafelli. Þar
held ég, að sé einhver fegursti staður á þessari plánetu. En þessa fimm
daga rigndi látlaust. A sjötta degi veittist mér sú mikilfenglega lífsreynsla
að fara vestur yfir Skeiðarársand og ríða Skeiðará sjómikla. Þarna beljaði
hún niður sandinn í ótal álum, kolmórauð, með fossandi straumfalli, svo
að straumhnyklarnir hrúguðu hátt í loft upp. Við vorum tvo klukkutíma
að komast yfir hana. Nessveitin — en svo heitir bygðin meðfram
Hornafirði austanverðum — er líka yfirnáttúrlega fögur. Þar eru elztu
fjöll landsins, og fólkið fer á milli bæjanna á bátum. Fjörðurinn er fullur
af eyjum og fugli, og silungur og koli (sem þeir kalla þar lúru) stekkur
lifandi upp í pottana. Skaftafellssýsla er gerólík öllum öðrum stöðum á
Islandi, bæði að því er náttúruna og fólkið snertir. Þar ættir þú að ferðast
um einhverntíma áður en Drottinn kallar þig upp á gullplan hinnar
sigrandi kirkju (eklezio triumfanta.)
Eg hefi nýlega komist í kynni við mikinn speking hér <0 bænum.
Hann er krypplingur og hefir tekið þátt í andatrúarfundum og andasær-
ingum í London fýrir 20 árum. Nú stúderar hann kenningar hins heilaga
Buddha og teiknar dularfullar táknmyndir, sem tíðkast hafa í indverskum
musterum fyrir þúsundum ára. Hann á ósköpin öll af enskum bókum um
alls konar efni, einkum þó um sálarfræði, dulspeki og mannfræði. Hann
veit alt, þekkir alt, skilur alt. Að lærdómi til er hann úrsmiður. Ég skal
koma með þér til hans, þegar þú kemur hingað næst.
Þórey og Kristín biðja að heilsa þér. Kristín elur nú mestan sinn aldur
á sundi til þess að ná af sér fitu.
Hvernig gengur þér að læra írskuna? Ef þú lest um einhvern mann í
fornírskum bókmentum, sem eitthvað líkist mér, bið ég þig að gera svo
428