Tímarit Máls og menningar - 01.12.1979, Side 77
Jólasaga
heimsborgari og fær tungumálamaður að honum hraus hugur við að
hann þyrfti að hverfa aftur til Narsak í deyfðina þar, nema þegar hann
varð ofurölvi, þá langaði hann að hoppa á ísjökum á höfninni.
Eftir ljóta drykkjurispu skaut upp í eskimóanum dýrslegri löngun til
að refsa sjálfum sér. Hann svelti í sig hyggindi á ný, safnaði fé og hafði öll
spjót úti og stundaði smygl og smáinnbrot. En vart hafði upphæðin náð
vissu marki þegar hann glotti að sparisjóðsbókinni stríðnislega, því hún
hélt að innstæðan væri svo há að enginn gæti eytt. Eskimóinn þoldi ekki
hroka bókarinnar og ákvað að lækka í henni rostann og eyða valdi auðsins
með óskaplegri drykkju. Arásir hans á auðvaldið hófust einkum eftir
góðar söluferðir til Hamborgar. Eskimóinn lauk lofsorði á hórurnar í
Hamborg á þreföldu hrafli úr þremur tungum og grenjaði í angist á
einhverja Lottu sem var feitari en selur og gekk í nærbuxum úr lostætu
efni, sem hann lifði á í huganum löngu eftir að hann hafði étið bux-
urnar; kyssti hann þá í ákafa fúlt reykjarloftið í gestamóttökunni þar sem
ósýnileg hóran sveif í ilmandi hugarsýn. Síðan grét eskimóinn magn-
lausum gráti og glær slefa rann í taumum um bláar varir hans. Þá gaf ég
honum af brauðinu mínu og kaffi og hann rankaði við sér, svipti burt
sorg og harmi og hóf sölu á smyglvarningi af einstæðum dugnaði og
útsjónarsemi. Hann seldi jafnvel lögreglunni smyglað dót.
Eitt sinn eftir fisksölu í Þýskalandi seldi eskimóinn smyglaða frakka.
Frakkarnir voru fram úr hófi ólögulega sniðnir, líkt og á kassalaga
kolamokara, og voru þeir fóðraðir með svampkenndu fóðri sem gerði þá
stífa og óþjála og tók allan vöxt af fólki. Sala smyglsins hófst eftir
miðnætti. Eskimóinn seldi svampfrakkana grimmt á götunni, svo ætla
mætti að stór hluti reykvíkinga hefði brugðið sér frakkalaus á ball þetta
laugardagskvöld. Eskimóinn klæddist frökkunum hverjum utan yfir
annan og mjakaðist áfram líkur mörgæs þegar hann kom niður í lyftunni,
svo skjólfatalegur á að líta að enginn hefði efast um að hann gæti þraukað
af ísöld. Að vörmu spori sneri hann aftur léttklæddur og skafbylur feykti
honum inn. í lokin seldi hann alla frakkana og enginn drukkinn maður
norpaði á jakkanum í miðbænum.
Einnig henti að eskimóinn hengdi utan á sig ýmsar tegundir af
búsáhöldum undir yfirhöfnina og hefur eflaust selt þau húsmæðrum sem
451