Tímarit Máls og menningar - 01.12.1979, Page 118
Gísli Agúst Gunnlaugsson
Samskipti Magnúsar Stephensen
og fátækranefndar Reykjavíkur og
Seltjarnarneshrepps 1822—1830
í lok 18. aldar og í upphafi þeirrar 19. horfði til hreinna vandræða í framkvæmd
framfærslumála hérlendis. í kjölfar Móðuharðinda fór fjöldi fólks á vergang og
sveitfesti manna varð illfinnanleg. Olli þetta verulegum vandkvæðum sem
skiljanlegt er þegar haft er í huga að fæðingarhreppur manna var jafnan einnig
sá staður er menn skyldu framfærast á, brygðust þeim önnur úrræði með að sjá
sér og sínum farborða. Lög þau er um framfærslu fárækra giltu voru gengin sér
til húðar og hafði engin heildarendurskoðun þeirra átt sér stað frá setningu
Jónsbókar (1280). Þó hafði verið reynt, einkum á 18. öld, að bæta úr tilfinnan-
legustu göllum gildandi laga með konunglegum tilskipunum, sem fæstar komu
að því gagni sem af þeim var vænst.1.
Engin raunhæf breyting var gerð á löggjöf um fátækramálefni fyrr en árið
1834, er fátœkrareglugerðin svonefnda gekk í gildi. Var jafnvel svo komið á
öðrum áratugi 19. aldar, að sömu reglur giltu ekki um fátækraframfærslu alls
staðar á landinu.2 Engu að síður komu fram ýmsar hugmyndir á þessum tíma
um gagngerar breytingar á fátækralöggjöfinni. Mun á engan hallað þó því sé
fram haldið að Magnús Stephensen hafi borið fram markverðustu tilraunina til
úrbóta í þessu efni.
Það var árið 1808 að Magnús gaf út Hreppstjórainstrúxið, sem svo var nefnt.
Markverðasta nýjungin sem instrúxið boðaði var, að hreppstjórar voru gerðir
nær einráðir um framkvæmd sveitarstjórnarmála og þar með fátækraframfærslu
i umdæmum sinum. Sýslumaður skyldi þó hafa ákvörðunarvald um deiluefni
varðandi framfærslu fátækra innan sýslumarka en amtmaður skera úr deilum
milli sýslna. Instrúxið var í reynd fyrsta tilraun á síðari öldum til að tryggja
fátæklingum mannúðlegri meðferð af hálfu sveitarstjórna og ber vott um
skilning á aðstæðum þeirra. Þannig er að finna í instrúxinu ákvæði er banna
þurfamannaflutninga á þunguðum konum og kveðið er á um að leiðarbréf
492