Tímarit Máls og menningar - 01.09.1983, Page 40
Tímarit Máls og menningar
teppi á gólfi. Allt ber þess merki að nemendur eiga þátt í að móta
umhverfið.
Ekki er útilokað að lesandinn hitti á förnum vegi kennara, trúlega á
unglingastigi, sem kveðst að vísu kannast við opið kerfi af afspurn en hann
sé hins vegar að glíma við að skipuleggja kennsluna í anda samþœttingar,
sem er á svipuðum nótum. Nemendur fást þá við ákveðin viðfangsefni eða
þemu, oft í hópum, afla upplýsinga, vinna úr heimildum og koma niður-
stöðum á framfæri t. d. með skýrslum, í bók, á veggspjöldum eða með því
að setja upp sýningu. Viðfangsefnin tengja oft saman námsgreinar; sem
dæmi um þemu má nefna hverfið okkar, daglegt líf fyrr á öldum, landvernd,
mengun, fjölmiðla, auglýsingar og áróður, ástina, kaup og kjör, atvinnu-
vegina.
Flestir lesenda munu hafa séð dæmi um vaxandi fylgi sveigjanlegra
kennsluhátta í frétt í dagblöðum, eflaust um svokallaða opna viku í einhverj-
um skóla. Kannski var þetta starfsvika, sæluvika, stóra-vika eða bara vordag-
ar. Fréttinni fylgdu áreiðanlega myndir af áhugasömum nemendum við hin
margvíslegustu verkefni, svo sem að smíða líkön, gera tilraunir eða vett-
vangsathuganir, teikna eða mála; við ljósmyndun, bókagerð eða önnur
lifandi og skemmtileg viðfangsefni. I fréttinni kom líka fram að kennararnir
væru ánægðir og undrandi yfir miklum áhuga nemenda. Stundum hefði
þurft að reka þá heim úr skólanum! Starfið sem fram fer ber margvísleg
einkenni sveigjanlegra kennsluhátta en einskorðast því miður við eina til
tvær vikur á hverju skólaári.
Þess sjást ýmis teikn að hugmyndir um sveigjanlegt skólastarf hljóti nú
aukinn hljómgrunn. Til marks um það er að yfirfullt hefur verið á öll þau
námskeið sem Kennaraháskóli Islands hefur efnt til um þessi mál. S.l. sumar
sóttu rúmlega 20C kennarar námskeið sem báru yfirskriftina sveigjanlegt
skólastarf og komust þar að mun færri en vildu.
Hvaða viðhorf ráða ferðinni?
I stuttri tímaritsgrein er engin leið að gera viðunandi grein fyrir viðhorfum
kennara sem reyna fyrir sér með sveigjanlega kennsluhætti. Ekki verður þó
hjá því komist að drepa á þetta.
Fyrir tveimur árum átti ég allýtarlegar viðræður við nokkra kennara og
skólastjóra sem fengist hafa við nýbreytnistarf. M. a. reyndi ég að grafast
fyrir um það hvers vegna þeir hefðu lagt út á þessar brautir. Skólastjóri í
kaupstaðarskóla svaraði þessu á þennan veg:
E. t. v. var meginástæðan fyrir breytingunum þreyta á að hjakka
stöðugt í sama fari. Það ýtti undir að við reyndum nýjar leiðir.
390