Tímarit Máls og menningar - 01.09.1983, Page 43
Það er líka ýmislegt að gerast hér heima — þegar vel viðrar
horfins samfélags. Það verði að horfa til framtíðar og minnast þess að þau
börn sem nú er verið að ala upp verða virkir þegnar í samfélagi 21.
aldarinnar. Skólinn verði, í stað þess að eyða mestum tíma sínum til að
miðla nemendum af þekkingu sem úreldist fyrr en varir, að þjálfa þá í að afla
sér þekkingar, gera þeim kleift að draga eigin ályktanir, temja þeim
gagnrýna og sívakandi hugsun. I þessu felst einnig krafan um að í stað
þululærdóms sé leitast við að efla skilning barna á umhverfi sínu, á
mannlegu samfélagi og umhverfi, á ólíkum kjörum fólks í heiminum,
vandamálum samtíðar og framtíðar. Þetta verður ekki gert með því að segja
nemendum deili á fyrirbærunum, skýra fyrir þeim samhengi og rekja þeim
ályktanir forkólfa eða fræðimanna heldur með því að þeir glími við hlutina
sjálfir.
Væntanlega er nú ljóst að hugmyndir um sveigjanlegt skólastarf sverja sig
mjög í ætt við þá opinberu umbótastefnu í skólamálum er nokkru réð við
setningu laga um grunnskóla 1974 og námskrár árin þar á eftir, sem raunar
má segja að mæli fyrir um sveigjanlega kennsluhætti. Þessar aðgerðir marka
að sumra dómi endapunkt á bjartsýnisskeiði meðal skólamanna sem hófst á
sjöunda áratugnum og einkenndist m. a. af þeirri trú að um skólann lægi
mikilvæg leið í átt til manneskjulegra samfélags og lýðræðislegri samskipta.
Síðan hefur trúin greinilega rénað á að „hið opinbera" geti haft
frumkvæði í þessum efnum. Stuðningur af þess hálfu er áreiðanlega mikil-
vægur en hugmyndir um sveigjanlegt skólastarf byggjast m. a. á því, að það
þurfi að verða viðhorfsbreyting hjá þeim er standa að skólanum, einkum
meðal kennara. Forsenda þess að til verði góður skóli sé einkum sú að sem
flestir reyni að leita að honum.
Hægt og bítandi fjölgar þeim kennurum og foreldrum hér á landi sem
vilja vinna að framgangi hugmyndanna sem hér hafa verið reifaðar. Þessi
áhugi hefur aukist til muna að undanförnu svo líkja má við hreyfingu —
jafnvel vakningu, enda þótt hér sé ekkert fagnaðarerindi boðað, ekki
„varanlegar lausnir“ á vanda skólans, aðeins þrotlaust starf. En það er uggur
í mönnum.
Víða á Vesturlöndum eiga hugmyndir um sveigjanlegt skólastarf undir
högg að sækja. Margir virðast vilja feiga alla viðleitni í skólamálum sem
boðar virkni, sjálfstæða og gagnrýna hugsun, fordómaleysi og samábyrgð.
Þeim vex sums staðar fiskur um hrygg sem boða „dyggðir“ á borð við
refjalausa hlýðni, þjóðernisrembing og innrætingu „algildra sanninda“ í
stjórnmálum og trúmálum. Margir óttast að hugmyndir af þessu sauðahúsi
muni ná til Islands og þá verði troðnir niður þeir veikburða vaxtarbroddar
sem hafa verið að leita sér birtu í skólum landsins upp á síðkastið. Þeir sem
393