Tímarit Máls og menningar - 01.09.1983, Side 71
Hnattferb með Helga
þær orki víðast hvar sem frumortar og að skáldin séu fullkomlega eins
og þau eigi heima í hinum íslenzka búningi.
Af þeim mörgu og sundurleitu góðskáldum sem Bretlandseyjar hafa
alið hefur Helgi kvatt álitlegan hóp til síns mikla skáldaþings, en meðal
þeirra er þó einn miklu aðsópsmestur og ber ægishjálm yfir aðra, og heitir
sá Vilhjálmur Shakespeare. Það kemur raunar ekki á óvart að hann sé
fyrirferðarmikill í þessu safni Helga, þegar haft er í huga að Helgi hefur
með leikritaþýðingum sínum sinnt þessum höfundi meir en nokkrum
öðrum, og eru enda allmörg ljóð úr leikritum Shakespeares í safninu.
Meira er þó um vert að þeim fylgja þýðingar á fjórtán af 154 sonnettum
meistarans, sem eru meðal mestu dýrgripa allrar ljóðlistar og skipa
leikskáldinu mikla einnig í öndvegi meðal ljóðskálda. Það útheimtir
vissulega mikla bragsnilld að þýða þessar sonnettur, og er því að
sjálfsögðu mikið afrek að þýða þær með slíkum glæsibrag sem Helgi
gerir. Hins vegar er óneitanlega nokkuð annar blær yfir þýðingunum en
frumkvæðunum, því stíll Helga er yfirleitt þýðari og mýkri, hrynjand-
in jafnari og reglubundnari (og þar á íslenzk stuðlasetning sinn þátt),
orðfærið allt óbeinna og kannski svolítið langsótt á stöku stað og þær
betur fallnar til að vera lesnar í hljóði en þuldar upphátt af einhverjum
gustmiklum lokkalangi. En sem dæmi um það hvernig Helgi á til að
víkja frá beinskeyttara orðalagi frumtextans má taka lokalínurnar í
þrítugustu sonnettu:
But if the while I think on thee, dear friend,
All losses are restor’d and sorrows end.
sem Helgi þýðir:
En er mín hugarbára berst til þín
þá bætast öll mín töp og harmur dvín.
Með orðunum „mín hugarbára berst“ bætir Helgi inn í línuna líkingu
sem er í sjálfu sér falleg og óaðfinnanleg en gerir orðin óbeinni og
samband vinanna kannski svolítið huglægara. En Helgi á til að gera enn
djarflegri breytingar á orðalagi Shakespeares en þá er hér var sýnd, svo
sem í sextugustu og fimmtu sonnettu þar sem skáldið teflir, eins og
endranær, fegurðinni fram gegn æði forgengileikans, þótt hún sé við-
kvæm eins og blóm, og spyr:
421