Tímarit Máls og menningar - 01.09.1983, Page 76
Tímarit Máls og menningar
Við þetta verður það sem í frumkvæðinu birtist sem draumkenndur
möguleiki að blákaldri og einstakri staðreynd og allt fær nokkuð aðra
merkingu. Og lokaorðin, þar sem Rimbaud lýsir þeirri sælukennd að
vera „comme avec une femme“, verða svolítið önnur á íslenzkunni með
orðalaginu „eins og með unnustunni sinni“, og hæfa þá ekki beint
þessum einræna og óforbetranlega flakkara sem unni framar öllu hinu
ókunna og óbundna og sóttist sízt eftir mannlegum tengslum (nema þá
helzt við flökkunaut sinn, Verlaine)- samanber einnig línuna á undan:
et j’irai loin, bien loin, comme un bohémien.
Það eru einna helzt þýðingarnar úr frönsku sem gefa okkur tilefni til
aðfinnslu, en við getum hins vegar sparað okkur þær varðandi þýðingar
úr öðrum rómönskum málum, þótt þær séu að sögn þýðanda gerðar
eftir krókaleiðum. En hér er að finna ekki sízt ágæta hluti í sonnettu-
formi, hvort heldur það eru hinar hyggjuþungu sonnettur Michelange-
los úr ítölsku eða bráðfyndnar sonnettur Lopes de Vega úr spænsku, en
einnig má nefna hina tæru lýrik Garcia Lorcas. Það sem því gæti hér
helzt orðið okkur að umkvörtunarefni er að ekki skuli vera með í
þessum hópi sjálfur meistari og lárviðarskáld ítölsku sonnettunnar,
Francesco Petrarca, en hann ætti eftir öllum sólarmerkjum að dæma ekki
að liggja illa fyrir Helga. Mun minni stuðning af frumtexta en við
þýðingar sínar úr ítölsku og spænsku hefur Helgi trúlega haft við
þýðingar úr rússnesku, en þeim ber auðvitað sízt minna að heilsa fyrir
það hve þær eru langt að komnar og úr máli flestum óaðgengilegu. Það
sem við eigum hér til þýtt úr rússnesku af ljóðum er að vísu nokkuð og
sumt af því gert af rússneskumönnum, (Sigfúsi Blöndal og Geir Krist-
jánssyni) en mætti vera miklu meira, einkum þar sem í hlut á Alexander
Púsjkín sem er eitt af höfuðskáldum heimsins, eins og þau tvö kvæði
sem eru þýdd í þessari bók gefa góða vísbendingu um. Annað þeirra,
Spátnaðurinn, eitt frægasta kvæði hans, hefur raunar verið þýtt áður á
íslenzku og það úr frummálinu, en Helgi bætir þó um betur með sinni
þýðingu á þessu magnaða kvæði. Við hina þýðinguna, á kvæðinu Haust,
er það einkum athyglisvert, að þar hefur þýðandinn aldrei þessu vant
sleppt ríminu sem er á frumtextanum (A-B,A-B,A-B, C-C). En kvæðið
nýtur sín svo sem ágæta vel rímlaust, enda er á íslenzku alltaf binding af
stuðlasetningunni, en auk þess einkennist kvæðið af epískri breidd og
myndrænum lýsingum fremur en að það sé borið uppi af músík.
426