Tímarit Máls og menningar - 01.06.1994, Qupperneq 74
Hvernig má svo vera? Hér kemur orðið „différance“, skilafrestur, til sög-
unnar. Derrida sækir þessa hugsun langt aftur í aldir. Hún snýst um skilin á
milli þess sem var, er og verður, eða nánar sagt, skilin í veruleikanum sjálfum
á milli fortíðar, nútíðar og framtíðar. Nútíðin ein er. Hún er hér og nú.
Fortíðin er ekki lengur: Hún er skilin eftir. Framtíðin er ókomin, en hún
mun skila sér. Að endingu mun allt skila sér, — því að allt, bókstaflega allt,
veruleikinn sjálfur, er á skilafresti: endanlegri komu hans er endalaust slegið
á frest.
En þetta viðurkennum við ekki svo glatt: Við viljum að alltsé gefið hér og
nú, að veran sem heldur veruleikanum saman í einni heild stígi fram og segi:
Hér er ég, full-komin! Og við, mennskar verur, smíðum voldug hugmynda-
hús til að hýsa hina full-komnu veru, Veruna sjálfa, Veruna einu, Veruna sem
gefur öllu merkingu og gildi, geymir allt, heldur öllu til haga, hugsar um allt.
Og við þráum að kynnast henni og þjóna, vera hjá henni um alla eilífð.
En Veran sjálf unir sér aldrei í hugsmíðum okkar, heldur fer sínar eigin
leiðir og segir skilið við hugmyndahallir okkar eða felur sig í þeim. Þá getum
við bara gert eitt: í stað þess að byggja nýjar hallir afbyggjum við þær sem við
höfum áður reist og nýtum efnið í nýjar byggingar sem við vitum ekki hvort
Verunni þóknast. Og bíðum, full eftirvæntingar, hvað muni gerast næst.
Hvort vofurnar muni ekki koma saman til fundar í fræðilegum vistarverum
okkar og ákveða frestinn sem okkur er gefinn til að standa skil á merkingu
heimsins og lífsins.
1 Sjá Ríkið VIII. bók og áfram. (Útg. Hið íslenska bókmenntafélag. Eyjólfur Kjalar
Emilsson þýddi.)
72
TMM 1994:2