Tímarit um menntarannsóknir - 01.01.2005, Side 15

Tímarit um menntarannsóknir - 01.01.2005, Side 15
15 Tímarit um menntarannsóknir, 2. árgangur 2005 uppeldis, þ.e. viðurkenningu, hegðunarstjórn og stuðningi (Gray og Steinberg, 1999). Í rannsókninni er sérstaklega hugað að því hvort uppeldisaðferðir foreldra tengjast brotthvarfi ungmennanna frá námi þrátt fyrir að tillit sé tekið til félags- og efnahagslegrar stöðu foreldra. Eins og fram hefur komið hefur áhersla í rannsóknum á tengslum á milli fjölskylduþátta og brotthvarfs frá námi aðallega beinst að félags- og efnahagslegri stöðu foreldra. Komið hefur fram sú athyglisverða umræða að mæling á félags- og efnahagslegri stöðu foreldra sé í raun ekki aðeins mæling á menntun, stöðu og tekjum þeirra heldur á fjölda persónu- og félagslegra þátta eins og uppeldisaðferðum foreldra sem tengjast námsgengi ungmennanna (sjá yfirlitsgrein Jeynes, 2002). Okkur þykir því mikilvægt að taka tillit til félags- og efnahagslegrar stöðu foreldra þegar við könnum tengslin á milli uppeldisaðferða foreldra og brotthvarfs ungmenna frá námi. Jafnframt er tekið tillit til þess hvort í hlut eiga stúlkur eða piltar þar sem piltar virðast síður ljúka framhaldsskóla en stúlkur (Jón Torfi Jónasson og Kristjana Stella Blöndal, 2002). Í ljósi þess að fyrri rannsóknir (samantekt Battin-Pearson o.fl., 2000; Jón Torfi Jónasson og Kristjana Stella Blöndal, 2002) benda til sterkra tengsla á milli fyrri námsárangurs og brotthvarfs frá námi er tekið tillit til námsárangurs þegar athuguð eru tengsl upp- eldisaðferða foreldra og brotthvarfs ung- menna frá námi. Önnur ástæða fyrir því að taka tillit til námsárangurs er sú að á fyrri stigum þessarar rannsóknar kom fram að uppeldisaðferðir foreldra tengjast náms- árangri þeirra á samræmdum prófum (Sigrún Aðalbjarnardóttir og Kristjana Stella Blöndal, 2004). Því hefur verið haldið fram að samræmd próf við lok grunnskóla endurspegli námshæfni fólks ekki síður en að vera mæling á kunnáttu í einstökum greinum (Jón Torfi Jónasson og Guðmundur B. Arnkelsson, 1992). Þá hefur komið fram að forspárgildi einkunna á samræmdu prófi í íslensku og í stærðfræði um brotthvarf frá námi virðist svipað (Jón Torfi Jónasson og Kristjana Stella Blöndal, 2002). Af þeim sökum er hér aðeins hugað að námsárangri úr annarri námsgreininni og varð íslenska fyrir valinu. Rannsóknir á brotthvarfi frá námi hafa verið gagnrýndar fyrir skort á langtímasniði þar sem slíkt snið gefur kost á að álykta af meira öryggi um hvort þættir eins og uppeldisaðferðir spái fyrir um brotthvarf en ef um er að ræða þversnið (Rosenthal, 1998). Þessi rannsókn er byggð á langtímasniði sem nær yfir ríflega sjö ára tímabil og var ungmennum fylgt eftir frá 14 ára aldri þar til flest þeirra voru orðin 22 ára. Þær langtímarannsóknir sem gerðar hafa verið á þessu sviði hafa jafnframt flestar náð yfir styttri tíma en í þessari rannsókn. Lengra tímabil ætti augljóslega að gefa betri upplýsingar um brotthvarf frá námi þótt ljóst sé að einhver ungmenni sem hér flokkast undir brotthvarfshóp eigi eftir að ljúka framhaldsskóla. Bent skal á að í umfjöllun um trúverðugleika upplýsinga um brotthvarf frá námi hefur verið mælt með þeirri aðferð sem hér er viðhöfð, það er að fylgja eftir árgangi (Orfield, 2004). Tilgátur Í ljósi niðurstaðna ofangreindra rannsókna er búist við því • að „viðurkenning“ foreldra og „stuðningur“ tengist brotthvarfi ungmenna frá námi; því meiri viðurkenningu og stuðning sem unglingarnir telja sig búa við 14 ára gamlir þeim mun líklegra sé að þeir hafi lokið framhaldsskólaprófi við 22 ára aldur. Þá er þess vænst að þeir unglingar sem telja sig búa við miðlungs „hegðunarstjórn“ foreldra við 14 ára aldur séu líklegri til að ljúka framhaldsskóla; • að uppeldisaðferðir foreldra tengist brott- hvarfi frá námi á ofangreindan hátt hvort sem stúlkur eða piltar eiga í hlut, hver sem félags- og efnahagsleg staða foreldra þeirra er og hvort sem ungmennin hlutu lága eða háa einkunn á samræmdu prófi í íslensku við lok grunnskóla. Brotthvarf frá námi

x

Tímarit um menntarannsóknir

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Tímarit um menntarannsóknir
https://timarit.is/publication/1140

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.