Tímarit um menntarannsóknir - 01.01.2005, Page 69
69
Tímarit um menntarannsóknir, 2. árgangur 2005
Hvernig mæla á hugsmíðar
með erlendum mælitækjum:
Þýðing og staðfærsla á spurningalistum og prófum
Sigurgrímur Skúlason
Námsmatsstofnun
Markmiðið með því að þýða og staðfæra mælitæki, til dæmis spurningalista eða próf, er að
útbúa mælitæki sem aflar upplýsinga um hugsmíð með sama hætti í þýðingarlandi og frumútgáfa
mælitækisins gerir. Ákveðnar próffræðilegar forsendur þarf að uppfylla til að það sé mögulegt. Í
fyrri hluta greinarinnar er fjallað um próffræðilíkan sem dregur þessar forsendur fram en í síðari
hluta er vinnuferli við þýðingu og staðfærslu lýst. Próffræðilíkanið er notað til að skilgreina
nákvæmlega markmið með þýðingu og staðfærslu mælitækja og hvaða forsendur þurfa að vera til
staðar svo að vel takist til. Líkanið hjálpar jafnframt við að draga fram afleiðingar af hnökrum eða
ónákvæmni í þýðingu og skýrir um leið tilgang og mikilvægi ákveðinna verkhluta. Í síðari hluta
greinarinnar verður ferlinu, þ.e. verkþáttum við þýðingu og staðfærslu á mælitækjum, lýst. Þessir
verkþættir eru: Undirbúningur, þýðing og aðlögun texta, endurbætur, stöðlun (ef við á) og útgáfa.
Byggt er á almennt viðurkenndu verklagi en hér er reynt að draga fram sjálfstæði verkþátta með
skýrari hætti en áður hefur verið gert. Fjallað er stuttlega um verkþættina og þeir skilgreindir með
það að markmiði að þeir sem þurfa að þýða og staðfæra mælitæki fái raunhæfar forsendur til að
skipuleggja vinnuferlið.
Hlutverk mælitækja er að afla upplýsinga. Í
þessari grein verður fjallað um mælitæki þar
sem tungumál í formi spurninga og svara er
notað í mælingarferlinu. Slík tæki eru þróuð til
að mæla tiltekna hugsmíð eða þekkingarsvið
hjá ákveðnum markhópi (Crocker og Algina,
1986; Millman og Greene, 1989). Í mörgum
fræðigreinum og starfi fagstétta eru slík
mælitæki notuð til að safna upplýsingum með
kerfisbundnum hætti. Þau eru notuð m.a. í
félags- og hugvísindum, menntageiranum,
læknis- og hjúkrunarfræði og viðskiptafræði
og mæla hugsmíðar eins og þunglyndi,
sjálfsmynd, stjórnmálaskoðanir, neysluvenjur,
heilbrigðissögu og félagslegan bakgrunn. Oft er
talið æskilegt að flytja stöðluð greiningartæki,
t.d. kunnáttu- og réttindapróf, spurningalista,
mats- og gátlista og spurningaramma fyrir
viðtöl milli málsvæða, en hlutur tungumáls í
slíkum mælitækjum gerir það erfitt.
Þýðingu og staðfærslu verður að haga
með þeim hætti að upplýsingar sem fást
Tímarit um menntarannsóknir, 2. árgangur 2005, 69–81
Hagnýtt gildi: Þýðing og staðfærsla á mælitækjum, til dæmis spurningalistum eða prófum, lýtur öðrum
lögmálum en aðrar þýðingar. Markmið slíkra þýðinga er að þýtt og staðfært mælitæki gefi sambærilegar
upplýsingar og frumútgáfa þess en blæbrigði textans skipta ekki máli. Fjallað er um hvað einkennir
próffræðilega eiginleika staðfærðra þýðinga og vinnuferlinu við þýðingu þeirra er lýst. Greinin er ætluð
fagfólki og rannsakendum sem starfa á sviði félagsvísinda, menntamála, heilbrigðismála og fleiri sviðum og
þurfa að nota staðfærðar þýðingar mælitækja eða standa sjálf að þýðingu og staðfærslu þeirra.