Tímarit um menntarannsóknir - 01.01.2005, Page 78

Tímarit um menntarannsóknir - 01.01.2005, Page 78
78 Tímarit um menntarannsóknir, 2. árgangur 2005 (International Test Commission, 2001). Markaðssetning getur falist í formlegri útgáfu og sölu, grein í fagtímariti eða skýrslu sem unnt er að dreifa til notenda eftir þörfum. Þó þýðing og staðfærsla sé ekki gefin út er nauðsynlegt að ganga svo frá upplýsingum um hana og eiginleika hennar að aðrir hugsanlegir notendur geti síðar nálgast þær. Nauðsynlegt er að gera rannsóknir á réttmæti staðfærðrar þýðingar til að kanna að hvaða marki próffræðilegir eiginleikar mælitækisins haldist. Því er eðlilegt að líta svo á að réttmætisrannsóknir séu einn hluti þýðingarferlisins og hér eru þær felldar undir útgáfuhluta. Hlutverk þeirra er að sýna fram á að túlkun niðurstaðna standist og að unnt sé að draga meginályktanir mælitækisins af staðfærðri þýðingu þess (International Test Commission, 2001; Messick, 1989). Ávallt er matsatriði hverjar af réttmætisrannsóknum sem gerðar hafa verið á frumútgáfu mælitækisins eigi einnig við um staðfærða þýðingu. Þó þarf allajafna að kanna greiningarhæfni staðfærðrar þýðingar, að hvaða marki hugsmíð er mæld með sama hætti og í frumútgáfu og að hvaða marki stigakvarði staðfærðrar þýðingar er sambærilegur frumútgáfu (van de Vijver og Leung, 1997; van de Vijver og Poortinga, 2002). Um staðfærða þýðingu gildir, rétt eins og um frumútgáfu mælitækja, að niðurstöður réttmætisrannsókna afmarka réttmætar túlkanir á niðurstöðum þess og um leið notagildi þess (Messick, 1989). Lokaorð Þýðing og staðfærsla mælitækja sem byggjast á tungumáli er flókið ferli. Til að vel takist til við það verður að velja mælitæki af kostgæfni, skipuleggja vinnu við þýðingu í samræmi við aðstæður og byggja endurbætur á upplýsingum úr ólíkum áttum og kynna eiginleika staðfærðrar þýðingar mælitækisins á viðeigandi hátt. Nauðsynlegt er að vinnuferlið sem heild og forsendur verkþátta séu ljósar þegar ákvarðanir um val á mælitæki, vinnuferli og aðferðir eru teknar. Hér hefur verið fjallað um þýðingu og staðfærslu sem samfellt ferli er hefst þegar þörf fyrir mælitæki verður ljós og lýkur þegar staðfærð þýðing mælitækis hefur verið gerð aðgengileg. Í of mörgum tilvikum leiða vanhugsaðar eða rangar ákvarðanir til þess að illa tekst til við verkið. Oftast er þetta vegna þess að þeir sem ákvarðanir taka hafa ekki yfirsýn á verkið eða þekkja ekki til þeirra leiða sem færar eru í hverjum verkhluta. Þessari grein er ætlað að bæta þar úr og er hún ætluð rannsakendum, fræðimönnum og fagfólki er notar mælitæki af þessu tagi í félagsvísindum, hugvísindum, menntageiranum, heilbrigðisgeiranum, á viðskiptasviðinu og víðar. Í þessari grein hefur áherslan verið á að lýsa próffræðilegum forsendum þýðingar og staðfærslu og heildstæðu vinnuferli við verkið. Æskilegt hefði verið að fjalla ítarlegar um verkþætti og aðferðir en unnt var að gera hér. Þörf er á að fjalla á íslensku um ólíkar aðferðir þáttagreiningar til að kanna innri byggingu mælitækja, aðferðir til að kanna atriðabundinn hópamun, stöðlun mælitækja, um atriði sem huga þarf að við val á mælitækjum til þýðingar og fleira. Þau verkefni verða að bíða um hríð. Abstract Translation and adaptation of measurement instruments The purpose of translation/adaptation of measurement instruments to another language is to obtain an instrument that can measure the same construct in identical manner in the second culture. The article presents a psychometric model, based on classical test theory, which describes the necessary conditions for the translation/adaptation to achieve this goal. Secondly, the article describes the translation/ adaptation process as a five component work process consisting of preparation, translation, revisions, standardization (if relevant), and publication. The preparation part consist of all actions up to the point where decision is made to translate/adapt. Translation consist of translating the instrument text and adapting it to the new culture. Revisions consist of evaluating the quality of translated items and revising items that are judged to be flawed. Þýðing og staðfærsla á spurningalistum og prófum

x

Tímarit um menntarannsóknir

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Tímarit um menntarannsóknir
https://timarit.is/publication/1140

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.