Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2011, Blaðsíða 15
AF VEIKUM MæTTI
15
háskóla. Markmiðið er fyrst og fremst að afla „faglegra“ úrræða. Eitt dæmi
þess er rannsóknarnefnd Alþingis, en hún var skipuð þremur sérfræðing-
um sem áttu að „leita sannleikans“ eins og það er orðað í lögum um
„aðdraganda og orsakir falls bankanna 2008“ og leggja mat á mistök og
ábyrgð. Nefndin lagði áherslu á að „varpa sem skýrustu ljósi á“ bankahrun-
ið, „safna saman upplýsingum um staðreyndir málsins“ og „draga upp
heildarmynd“ af því, eins og hún lýsti sjálf hlutverki sínu. Þau orð sem
notuð eru til að skilgreina verkefnið eru líkt og hin hefðbundnu einkunn-
arorð fjölmargra háskóla: „sannleikur“ og „ljós“.11
Engin hugmyndafræði lá hins vegar starfi nefndarinnar til grundvallar,
þótt markmiðið með skipan hennar hafi í raun verið að gera upp „fortíð-
arvanda“ þjóðarinnar. Tekið var skýrt fram í lögum að „tilgangur rann-
sóknarinnar h[afi] frá öndverðu verið að skapa grundvöll að almennu,
samfélagslegu uppgjöri málsins“.12 Þótt hér hafi ekki verið um að ræða
borgarastyrjöld eða hrun samfélagskerfis táknaði hrun bankakerfisins sam-
félagslegt og sögulegt rof. Því hefði mátt beita svipuðum aðferðum hér og
hjá öðrum þjóðum sem glímt hafa við „fortíðarvanda“. Hér var ekki um
sannleiksnefnd að ræða eins og þá sem starfaði í Suður-Afríku til að greina
arfleifð aðskilnaðarstefnunnar, en hún gegndi einnig samfélagslegu sátta-
hlutverki. Hér var heldur engin skírskotun til annarra sannleiksnefnda sem
glímt hafa við samfélagsáföll, eins og t.d. í Mið-Ameríku eftir borgara-
styrjaldir eða í Austur-Evrópu eftir hrun hugmyndafræðilegs kerfis. Hér
erum við aftur komin að atvinnumennskunni: að nálgast söguleg þáttaskil,
atvik, á forsendum stofnanavalds. Sjónarhornið er þröngt og bundið við
ákveðið tímabil fyrir hrunið og áður en neyðarlögin voru sett. Með öðrum
orðum sá Alþingi ekkert athugavert við að sleppa nefndinni við það rof
sem felst í beitingu neyðarréttar með setningu neyðarlaga – þar sem verið
er að breyta neyðarástandi í almenna reglu, að gera undantekninguna að
eðlilegu ástandi, eins og Giorgio Agamben mundi orða það.13
Í nafni fagmennsku, hæfni eða „hæfisviðmiða“ var reynt að bola einu
háskólakonunni úr nefndinni fyrir það eitt að hafa sagt opinberlega það
sem blasti við. Rekja mætti bankahrunið til græðgi þeirra sem fóru fyrir
11 „Rannsóknarnefnd Alþingis – spurningar og svör“, http:/www.rannsoknarnefnd.
is/category.aspx?catID=10 (sótt 10. febrúar 2011).
12 „Breytingar á lögum um Rannsóknarnefnd Alþingis“, http:/www.althingi.is/vefur/
frett.html?nfrettnr=1267 (sótt 10. febrúar 2011).
13 Sjá Giorgio Agamben, State of Exception, Chicago: University of Chicago Press,
2005.