Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2011, Blaðsíða 152
152
Fólk byrjaði að tínast út úr húsunum, hallaði undir flatt og starði út
að sjóndeildarhringnum, öll í sömu átt – til hafs. Í borginni var
þögn, hún var alveg þögul meina ég […] Svo byrjaði fólkið að ganga
af stað og áður en ég vissi var það á hlaupum – hvert sem ég leit var
fólk á harðahlaupum eftir götunum: gamalmenni, börn, fólk í jakka-
fötum – og öll í sömu átt: niður á strönd […] Tugir eða hundruð
þúsunda streymdu út úr borginni og niður á ströndina. En þegar
þangað var komið linnti fólk ekki hlaupunum […] Nei, það hljóp
yfir fjöruna og rakleitt út í sjó, stakk sér með höfuðið á undan á kaf í
sjóinn og var horfið fyrir fullt og allt […] Þannig hurfu allir og svo
hvarf sjórinn. (bls. 211–212)
Þarna er saga mannkynsins stillt á núllpúnkt – heimurinn, vistkerfið og
mannkynið „fjara“ út. Þetta er viðsnúningur á heimsendafléttu Sólskins
fólksins, en þar er Ari skyndilega staddur í auðri Reykjavík þar sem helsta
„lífsmarkið“ er innrás hryllingsvera úr sjónum. Ljóðið „Þangmenn“ úr
Ljúgðu Gosi, ljúgðu, lýsir svipaðri „innrás“ og jafnvel er hægt að ímynda sér
að hér sé um forsögu þessara verka að ræða; í stað uppvakninga sem koma
úr sjónum, eða „síga í köðlum niður úr stjörnunum“, fórnar heimsbyggðin
sér í sameiginlegum drekkingarhyl.28
Fréttirnar sem John færir falla þó í skuggann af sjálfu ætlunarverki
hans, ástæðu ferðalagsins. Líkt og oft er með ferða- og flóttamenn heims-
endabókmenntanna, t.d. Roland sem flakkar sömuleiðis yfir sandi blásið
eyðiland heimsslita í sagnabálki Stephens King um Myrka turninn (1982–
2004), knýr tiltekið markmið John áfram: Að finna „svarta hlutinn“. John
leitar þessa óskilgreinda grips og bindur við hann vonir um endurlausn
(eða jafnvel endurkomu merkingar í merkingarlausan heim).
Þótt Benni og Ella beri lítið sem ekkert skynbragð á hlutverk olíubor-
pallsins gerir John það og hann eygir tækifæri í vélum sem á sínum tíma
ruddu sér leið í gegnum jarðskorpuna. Hér er á ferðinni risavaxið tæki sem
hannað er til að brjóta náttúruna undir vald mannsins, svo hægt sé að sjúga
upp úr henni orkugjafana (vampíruþema sögunnar á undan birtist hér
ummyndað). Borinn brýtur sér leið í gegnum jarðlögin og söguna alla leið
28 Þorgerður E. Sigurðardóttir, „Öskrað inn í eilífðina: Um skáldskap Steinars
Braga.“ Í prýðilegri umfjöllun um skáldverk Steinars Braga bendir Þorgerður á
tengslin milli Sólskinsfólksins og ljóðsins „Þangmenn“. Sjá http://www.bokmenntir.
is/desktopdefault.aspx/tabid-3903/6066_read-18666/RSkra-111RSkra-111. Sótt
3. mars 2011. Steinar Bragi, Ljúgðu Gosi, ljúgðu, bls. 95.
bJöRN þÓR vILHJáLMSSON