Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2011, Blaðsíða 102
102
GuðNI ELíSSON
boðið að kynna bók sína í Silfri Egils stuttu eftir útgáfu hennar í Bret-
landi.20
Að lokum má nefna að á norðurhjara eru aukin hlýindi einfaldlega
tengd almennri velsæld. Það gerir Ágúst H. Bjarnason verkfræðingur í
athugasemdadálki á íslenskri loftslagsvefsíðu þar sem hann lætur í ljós þá
von að andstæðingar hans í deilunum hafi rétt fyrir sér. Ágúst hefur um
árabil hafnað ráðandi skýringum á breytingu veðurfars jarðar, en burtséð
frá því heldur hann því fram að aukin hlýindi séu til hagsbóta fyrir íslenska
þjóð: „Eins og ég hef áður sagt, þá vona ég að þið hafið rétt fyrir ykkur og
hlýindin góðu haldi áfram, þó svo ég óttist hið gagnstæða. Með ykkar hjálp
held ég þó í vonina …“.21 Það sama segir Geir Ágústsson, stjórnarmaður í
Frjálshyggjufélaginu: „Ég fagna hækkandi hitastigi. Megi sauðfé enn á ný
dafna á Grænlandi (eins og í tíð Eiríks rauða) og korni enn á ný verða sáð
víðar á Íslandi en undir Eyjafjallajökli.“22
Forðast ber að ætla að hver sá sem veltir fyrir sér jákvæðum afleiðing-
um loftslagsbreytinga geri sig sekan um velsældarrök. Umræða um þau
20 Laurence C. Smith, The New North: The World in 2050, London: Profile Books,
2011 (bókin var fyrst gefin út í Bandaríkjunum árið 2010 undir titlinum The World
in 2050: Four Forces Shaping Civilization's Northern Future). Smith var gestur í Silfri
Egils 27. mars 2011.
21 Ágúst er einn þekktasti „efasemdarmaður“ Íslands um ráðandi loftslagsvísindi, en
hann hefur haldið úti bloggsíðu um ýmis málefni tengd vísindum um langt skeið.
Sjá: „3 myndbönd“, 29. maí 2010, http://loftslag.blog.is/blog/loftslag/entry/
1061238/#comments [sótt 4. júní 2010]. Ágúst telur einnig líklegt að aukning á
koltvísýringi í andrúmsloftinu sé af hinu góða þar sem hann auki vöxt plantna í
gróðurhúsum. Sjá athugasemd 16 við færslu hans: „Er mikil eða lítil fylgni milli
koltvísýrings og lofthita jarðar? Hvers vegna var magn CO2 gríðarlegt áður fyrr?“,
26. maí 2009: http://agbjarn.blog.is/blog/agbjarn/entry/884604/ [sótt 16. júní
2010]. Vilhjálmur Eyþórsson er á sömu skoðun í pistlinum „Gróðurhúsaáhrif
væru góð“, 30. september 2007: http://vey.blog.is/blog/vey/entry/333333/ [sótt
16. júní 2010]. Varasamt er þó að líkja gríðarlega flóknu vistkerfi jarðar við þær
einfölduðu aðstæður sem hægt er að kalla fram í gróðurhúsum. Þetta er enn
skoðun Ágústs og Eyþórs þrátt fyrir margs konar vísbendingar um alvarlegar
afleiðingar vaxandi hitastigs og aukningar koltvísýrings í andrúmsloftinu og úthöf-
unum, eins og sést á nýlegum bloggfærslum. Vilhjálmur segir t.d. í umsögn um
pistil Ágústs „Hitametið 2010 – Nú er hitinn í frjálsu falli ...“ frá 2. febrúar 2011:
„Ég vildi óska, að Al Gore og gróðurhúsa-gengið hefði rétt fyrir sér og í gangi sé
endurhlýnun, þannig að jörðin mundi hitna um allt að fjórar gráður og ná þeim
hita sem ríkti á bóreölskum tíma fyrir nokkur þúsund árum þegar Sahara var
algróin og Ísland jöklalaust“: http://agbjarn.blog.is/blog/agbjarn/entry/1139158/#
comments [sótt 18. febrúar 2011].
22 Sjá Geir Ágústsson, „Loftslagsvísindin í mjög stuttu máli“, 12. ágúst 2010: geira-
gustsson.blog.is/blog/geiragustsson/entry/1084609/ [sótt 18. febrúar 2011].