Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2011, Blaðsíða 182
182
JONATHAN COLE
Getum við lært af fortíð okkar?
Raunverulegar afleiðingar McCarthytímabilsins voru miklu djúpstæðari
fyrir bandaríska háskólakennara heldur en afleiðingarnar af stríði Bush-
stjórnarinnar gegn hryðjuverkum. Á McCarthytímabilinu litu sumir
þingmenn og fulltrúar alríkislögreglunnar FBI svo á að háskólarnir væru
griðastaðir kommúnista, fyrrverandi kommúnista, „samferðamanna“ og
róttækra stúdenta. Fólk við bestu háskólana sem neitaði að „nefna nöfn“ í
„nornaveiðum“ sjötta áratugarins galt það dýru verði með því að ferill
þess, jafnvel líf þess, var lagt í rúst. Við höfum ekki upplifað ofsóknir af
þessu tagi, gegn málfrelsi eða félagslegum tengslum eftir aldamótin. Við
höfum ekki þurft að þola það tjón – í formi glataðra rannsóknatækifæra,
ömurlegs starfsanda eða ótta – sem náði hámarki á McCarthytímabilinu.
En þessar staðreyndir ættu ekki að veita okkur of mikla ró. Eins og rætt
verður síðar höfðu margar aðgerðir stjórnvalda eftir september 2001 sem
skertu borgaralegt frelsi og þegnréttindi veruleg áhrif á gildismat og
starfsemi rannsóknaháskólanna. Nýjar tegundir stjórnvaldsafskipta urðu
til á árum Bushstjórnarinnar. Við getum öll dregið lærdóm af fortíðinni,
þar á meðal nýliðnum tímum.
Og það er margt sem við getum lært. Bandaríkjamenn hafa reglulega, á
tímum raunverulegs eða ímyndaðs hættuástands, verið beðnir um að hug-
leiða eðlilegt jafnvægi á milli einstaklingsréttinda og þjóðaröryggis. Lögin
um óvinveitta útlendinga og hvatningu til uppreisnar frá 1798, lögin um
habeas corpus sem Lincoln forseti nam úr gildi í borgarastríðinu, lög um
njósnir frá 1917, fangelsun Bandaríkjamanna af japönskum uppruna eftir
árásina á Pearl Harbor og Smith-Carren lögin sem sett voru á McCarthy-
tímanum: Allt svipti þetta Bandaríkjamenn (eða suma Bandaríkjamenn)
grundvallarborgararéttindum í þeirri viðleitni að tryggja þjóðaröryggi. Í
öllum tilfellum fór það hins vegar svo að frelsissvipting, sem virtist nauð-
synleg þegar ákvörðun var tekin, var þegar frá leið augljóslega yfirdrifin og
óþörf, jafnvel tilgangslaus með öllu – tilefni til eftirsjár og þjóðarskammar.
Í nýlegu ávarpi sínu til Hæstaréttar Bandaríkjanna komst Geoffrey Stone,
stjórnskipunarlögfræðingur og fyrrverandi aðstoðarrektor Chicago háskóla
að þeirri niðurstöðu að „á stríðstímum, eða, með nákvæmara orðalagi,
þegar þjóðaröryggi er í hættu, takmörkum við borgararéttindi af of mikilli
hörku, og svo, síðar meir, sjáum við eftir hegðun okkar“.7
7 Geoffrey R. Stone. „Civil Liberties in Wartime,“ Journal of Supreme Court History
28, no. 3 (2003), bls. 215–251, bls. 215.