Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2011, Blaðsíða 115
115
DÓMSDAGSKLUKKAN TIFAR
Vísindin eru yfirmáta íhaldssöm og varfærin leið til þess að leita sann-
leikans í hverju máli þar sem róttækustu kenningarnar mæta mestri fyrir-
stöðu vegna þess að á þeim hvílir þyngsta sönnunarbyrðin.59 Í fljótu bragði
virðist því mega merkja ósamræmi í tungumáli vísindamanna og umfjöllun
fjölmiðla um hugsanlega loftslagsvá. Fjölmiðlamaðurinn Egill Helgason
hefur réttilega bent á þetta ósamræmi, en hann dregur þá vafasömu álykt-
un að af þeim sökum hljóti almenna umræðan um tafarlausar aðgerðir að
einkennast af tilefnislitlum hræðsluáróðri: „Því fer auðvitað fjarri að sam-
staða sé meðal vísindamanna um þessi mál. Íslenskir fræðimenn á þessu
sviði taka til dæmis allir mjög varlega til orða – engar stórar yfirlýsingar
þar um mikla hættu.“60
En varfærnin í yfirlýsingum helstu sérfræðinga er ekki einvörðungu
bundin við hina vísindalegu aðferð. Ekki er ólíklegt að moldviðrið sem
þyrlað hefur verið upp af áhrifaöflum í olíu- og kolageirunum hafi valdið
sjálfsritskoðun meðal vísindamanna, sem verða að fara óvenju varlega í
umræðunni um afleiðingar loftslagsbreytinga þar sem allar stórar yfirlýs-
ingar eru tættar í sundur af fulltrúum afneitunariðnaðarins og pólitískum
hagsmunasamtökum. Þeir vísindamenn sem ekki fara hægt í sakirnar eiga
á hættu að vera álasað fyrir hrakspár og fá jafnvel á sig stimpilinn dóms-
dagsspámenn.61 Hið sama má segja um alla þá sem eftir lestur vísinda-
greina hvetja til aðgerða svo hægja megi á þróuninni. Þeir eru sagðir
grundvalla afstöðu sína á „trúarhugmyndum [fremur] en rökhyggju og vís-
indum“ og þeir áköfustu eru uppnefndir sem hlýnunarprédikarar sem
boða heimsendi eða dómsdag.62
afneitun: Ábyrg loftslagsumræða í fjölmiðlafári samtímans“, bls. 93–94. Sjá einnig:
http://www.euronet.nl/users/e_wesker/ew@shell/API-prop.html [skoðað 20.
febrúar 2011, upphaflega sótt 5. nóvember 2007].
59 Andrew E. Dessler og Edward A. Parson, The Science and Politics of Global Climate
Change: A Guide to the Debate, Cambridge/New York: Cambridge University
Press, 2008 [2006], bls. 29. Sjá einnig umfjöllun mína í „Efahyggja og afneitun:
Ábyrg loftslagsumræða í fjölmiðlafári samtímans“, Ritið 2/2008, bls. 78–81 og
96–101.
60 Svar Egils er að finna í ummælahluta bloggfærslunnar „Er heimilt að gagnrýna
fræðin?“ (8. apríl 2008). Sjá: http://eyjan.is/silfuregils/2008/04/08/er-heimilt-ad-
gagnryna-fraedin/ [sótt 11. apríl 2008].
61 Ég fjalla sérstaklega um hrakspárorðræðuna og vanda hennar í grein minni „Nú er
úti veður vont: Gróðurhúsaáhrif og íslensk umræðuhefð“, Ritið 1/2007, bls. 5–44,
sérstaklega bls. 12–18.
62 Andrés Magnússon, „Er betra að brenna mat en að borða hann?“, Eyjan, 16. apríl
2008. Egill Helgason tekur í sama streng í pistli sínum „Réttrúnaður samtímans“
[svo] frá 7. ágúst 2008, en þar segir hann m.a.: „Í athugasemdadálki neðar á síð-