Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2011, Blaðsíða 30
JÓN ÓLAFSSON
30
sem hvort tveggja hafi glatað tengslunum við þarfir og væntingar sam-
félagsins.
II.
Í bókinni Ekki í hagnaðarskyni. Hvers vegna lýðræðið þarfnast húmanískra
greina5 heldur Martha Nussbaum því fram að háskólinn sem slíkur standi
frammi fyrir djúpri kreppu. Það beri ekki mikið á henni á yfirborðinu, en
undir niðri sé hún eins og krabbamein sem breiðist út um sýktan líkama:
Þetta sé menntunarkreppa sem lýsi sér ekki síst í vaxandi tilhneigingu til
að útrýma húmanískum greinum – hugvísindum – úr háskólamenntun að
mestu eða öllu leyti.6 Nussbaum nefnir nokkur dæmi um hvernig háskól-
arnir hafa hneigst til að skera húmanískar greinar niður á námsskrám
sínum, jafnvel til að úthýsa þeim alfarið. Ástæðuna telur hún einkum felast
í aukinni kröfu samfélagsins, ekki síst foreldra, um að háskólar einbeiti sér
að því sem skipti máli við að þjálfa færni á hinum mismunandi sviðum
atvinnulífsins. Það sem ekki skili augljósum ávinningi á vinnumarkaði eigi
ekkert erindi í háskólamenntun.7
Nussbaum beinir athyglinni þannig að einum þeirra þátta sem í margra
augum lýsa vafasamri vegferð háskólans í samtímanum. Bók hennar er til-
raun til að sýna fram á að húmanískar greinar séu ekki forvitnileg eða
skemmtileg (en ónauðsynleg) viðbót við raunverulegt nám, heldur óað-
skiljanlegur hluti af háskólamenntun. Án undirstöðu í þeim sé nemandinn
verr staddur en hann væri annars, samkeppnishæfni hans sé þegar öllu er á
botninn hvolft minni ef hann skortir þessa undirstöðu en ef hann hefði
hana. Það séu húmanísku greinarnar sem styðji við þann þroska og þá
hugsun sem geri fólki kleift að hugsa um hlutverk sitt og ákvarðanir í víðu
samhengi og af dýpt, og færi því sjálfstraust og gagnrýni sem nauðsynleg
sé til sjálfstæðis og sjálfstæðrar hugsunar. Hugvísindi séu því hvorttveggja
í senn nauðsynlegur hluti grunnmenntunar í háskóla og um leið vettvang-
ur sérhæfðra rannsókna.8
Gagnrýni Nussbaum er ekki á samfélagslega eða pólitíska þróun sem
5 Ég tala í þessari grein jöfnum höndum um húmanískar greinar og hugvísindi (e.
humanities). Ég nota fyrrnefnda hugtakið til að leggja áherslu á almennt mennt-
unargildi þeirra greina sem venjulega eru nefndar einu nafni hugvísindi.
6 Martha Nussbaum, Not for Profit. Why Democracy Needs the Humanities, Princeton
og Oxford: Princeton University Press, 2010, bls. 1–2.
7 Martha Nussbaum, Not for Profit, bls. 4.
8 Martha Nussbaum, Not for Profit, bls. 41–42.