Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2011, Blaðsíða 133
133
DÓMSDAGSKLUKKAN TIFAR
spá líka aðferð til þess að ná tökum á ákveðnum ímynduðum aðstæðum svo
hægt sé að búa sig undir þær, ef og þegar þær gerast. Af þessum sökum er
t.d. mikilvægt að setja fram faraldsfræðilegar spár um dreifingu drepsótta,
ef og þegar þær skjóta rótum. Í þriðja lagi er ekki hægt að leggja allar spár
að jöfnu, vísindalegt vægi þeirra er misjafnt. 2000- (eða Y2K-) vandinn var
uppblásinn,115 en kenningin um hann var heldur ekki studd af þúsundum
sjálfstæðra rannsókna eins og er raunin um rannsóknir á hlýnun andrúms-
loftsins. Því er fjarstæða að ræða þessar tvær spár í sömu andrá. Í fjórða lagi
eru sumar ,falsspárnar‘ sem Egill tínir til næsta einkennilegar. Hættan á
kjarnorkustríði var raunveruleg á síðari helmingi tuttugustu aldar og
stundum munaði ótrúlega litlu að það brytist út vegna pólitískrar spennu
eða einfaldlega vegna mistaka.116 Hið sama má segja um fólksfjölgunar-
vandann. Þó svo að frægir spádómar Pauls R. Ehrlich úr The Population
Bomb (1968) um að gríðarlegar hungursneyðir myndu hrjá mannkyn milli
1970 og 1985 rættust ekki með þeim hætti sem hann taldi, t.d. vegna ófyr-
irsjáanlegrar þróunar í kornrækt, er vandinn ekki úr sögunni eins og ætla
mætti af orðum Egils. Fólksfjölgunarvandinn hefur líklega aldrei verið
meiri og er samtvinnaður glímunni við hlýnandi veðurfar.117 Síðast en
ekki síst er athugasemdin um alnæmi sérkennileg. Tuttugu og fjórar millj-
ónir létust úr alnæmi á árunum milli 1980 og 2007 og talið er að um 2030
muni þessi tala vera nálægt 75 milljónum.118 Alnæmi getur í ljósi þessa
varla talist vera uppblásinn vandi.
66–106), eyðingu ósons (bls. 107–135) og óbeinna reykinga (bls. 136–168). Rökin
sem þeir settu fram, jafnt þau vísindalegu sem þau hagfræðilegu, hafa löngu verið
hrakin. Það er sérstaklega forvitnilegt að ,efasemdarmennirnir‘ eru sömu einstak-
lingar og síðar leiddu ,vísindarökræðuna‘ í loftslagsdeilunni.
115 Afneitunarhreyfingar grípa oft til þessa samanburðar til þess að færa rök fyrir því
að kenningar um hlýnun veðurfarsins séu úr lausu lofti gripnar.
116 Um þetta má t.d. lesa í bók Scotts Douglas Sagan, The Limits of Safety:
Organizations, Accidents, and Nuclear Weapons, Princeton Studies in International
History and Politics, Princeton: Princeton University Press, 1993. Kjarnorkuváin
er enn til staðar þótt hún hafi verið minna til umræðu eftir daga kalda stríðsins.
117 Sjá t.d. Paul R. Ehrlich og Anne H. Ehrlich, „The Population Bomb Revisited“,
The Electronic Journal of Sustainable Development 1/3 2009, bls. 63–71, sjá hér sér-
staklega bls. 66: http://www.ejsd.org/docs/The_Population_Bomb_Revisited.pdf.
[sótt 13. júní 2010]. Sjá einnig umfjöllun Þorsteins Vilhjálmssonar í „Viðhorf og
vistkreppa“, bls. 8–12.
118 Sjá t.d. John Bongaarts, François Pelletier og Patrick Gerland: „Poverty, gender,
and youth: Global Trends in AIDS Mortality“, Population Council, Working Paper
no. 16, 2009. http://www.popcouncil.org/pdfs/wp/pgy/016.pdf [sótt 13. júní
2010].