Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2011, Blaðsíða 154
154
bJöRN þÓR vILHJáLMSSON
þaðan „næringu“. Þarna getur að líta vísi að þeim „samrun[a] lífrænna og
ólífrænna forma“ sem Úlfhildur Dagsdóttir kennir við „sæborgina“ en þar
er um að ræða hljóðþýðingu á enska orðinu „cyborg“ sem bandaríska
fræðikonan Donna Haraway hefur öðrum fremur fjallað um.29 Forvitnilegt
er að líta á úthafsolíuborpallinn sem sæborg í tvöföldum skiln ingi þess
orðs. Byggingarnar á pallinum, og öll mannvirkin og sá mikli fjöldi hæða
og herbergja sem Benni og Ella ná aldrei að kanna til fullnustu, minna á
nokkurs konar borgarrými – hugsanlega síðustu borgina sem „byggð“ er
lifandi fólki – og sú kaldranalega staðreynd að hafið í kringum þessa fyrr-
um bókstaflegu sæborg er horfið ljær hugmyndinni um sambúð manns og
vélar níhílíska vídd, tilraunin um þessa sambúð hefur hugsanlega leitt til
tortímingar hins lífræna. Í þeim skilningi stendur borpallurinn eftir sem
eins konar nátttröll neysluhyggjunnar eða steinrunnin sæborg.
Textatengsl má finna milli æskuminningar Benna af ánamaðkinum og
„Rafflesíublómsins“. Í „Rafflesíublóminu“ spyr Martin Emil eitt sinn
hvort hann hafi heyrt söguna af „langa maðkinum“. Það er við hæfi að
vitna til þessarar frásagnar í heild þar sem hún skírskotar á beinan hátt til
„Svarta hlutarins“:
Einu sinni var maður sem kom auga á maðk sem var í þann mund að
hverfa ofan í jörðina. Maðurinn stökk til, náði taki á maðkinum og
byrjaði að toga. Hann togaði og togaði og alltaf birtist meira af
maðkinum, en aldrei sá fyrir endann á honum. Undir morgun voru
komnir margir tugir metra af maðki upp úr jörðinni og umstangið
byrjaði að vekja athygli fólksins í húsunum í kring. Smám saman
söfnuðust fleiri kringum manninn til að hjálpa honum að eiga við
þennan óvenju langa maðk, gripu hver um sinn maðkhlutann og
tosuðu. Og enn hélt maðkurinn áfram að lengjast og enn fjölgaði
fólkinu þar til þessi líka ægilega langa halarófa af maðkafólki náði út
á götu, hlykkjaðist svo þaðan um götur borgarinnar og alla leið út úr
henni. Maðkurinn fyllti borgina og þyngd hans varð svo mikil og
tómarúmið ofan í jörðinni svo stórt að hún féll saman, varð einn
29 Úlfhildur Dagsdóttir, „Við skulum vaka um dimmar nætur og horfa til himna.
Marsbúar og sæborgir og önnur ó-menni“, Heimur kvikmyndanna, ritstj. Guðni
Elísson, Reykjavík: Forlagið og art.is, 1999, bls. 486. Sjá einnig Donna Haraway,
„A Cyborg Manifesto: Science, Technology, and Socialist-Feminism in the Late
Twentieth Century“, Simians, Cyborgs and Women: The Reinvention of Nature,
London: Routledge, 1991.