Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2011, Blaðsíða 18
IRMA ERLINGSDÓTTIR
18
samtímanum, hvort sem það á við um pólitík, gildi, siðferði eða eitthvað
annað. Hér er vitaskuld ekki átt við þá hirðmenntamenn sem Noam
Chomsky og Régis Debray nefndu mandarína eða menningarpáfa sem
þjóna ráðandi valdi og tala máli þess.23 Slíkir menntamenn breytast fljótt í
hugmyndafræðinga og verjendur valdkerfis og missa áhrifavald sitt vegna
þess að þeir eru ekki trúverðugir. Markmiðið er heldur ekki að upphefja
fjölmiðla-menntamenn, sem verða að akademískum dægurhetjum, eða
hetjulegar staðalmyndir 20. aldar menntamannsins sem samdi sig ekki að
ráðandi siðum og taldi sig geta talað í nafni alls samfélagsins eða eins stórs
sannleika. Og enn síður á að taka undir nýlegar markaðshugmyndir um að
endurvekja þennan sama menntamann á 21. öldinni í krafti stofnunarlegr-
ar viðurkenningar. Ekki þarf að taka fram að menntamaðurinn glataði
endanlega sjálfstæði sínu ef háskólastofnanirnar sjálfar krefðust þess að
„votta“ hann og gefa honum gæðastimpil.24 Slíkar hugmyndir eru aðeins
endurómur atvinnumennskunnar.
Endurskapa þarf hlutverk háskólasamfélagsins á þann hátt að það sam-
rýmist skilyrðislausum vettvangi og gangist við ábyrgð með því að svara
„kalli“ samtímans. Ákallið er alltaf til staðar, en það er einstætt (f. singulier)
á hverjum tíma og því aldrei fyrirfram gefið. Ábyrgur háskóli skellir ekki
skollaeyrum við þessu „kalli“; hann hlustar eftir því og þarf að bregðast við
því á ófyrirséðan hátt í hvert skipti. Háskólamaður sem sinnir starfi sínu af
„köllun“ svarar þessu kalli líkt og hann sé bundinn svardögum.25 Það þarf
stöðugt að glíma við spurninguna um ábyrgð, meta og endurmeta í hverju
23 Sjá Noam Chomsky, American Power and the New Mandarins, New York: Pantheon
Books, 1969; Régis Debray, Teachers, Writers, Celebrities: The Intellectuals of Modern
France, London: Verso, 1981. Sjá einnig Ron Eyerman, Between Culture and
Politics: Intellectuals in Modern Society, Cambridge: Polity Press, 1994; Ron
Eyerman, Lennart G. Svensson og Thomas Soderquist (ritstj.), Intellectuals, Uni
versities, and the State in Western Modern Societies, Berkeley, CA: University of
California Press, 1987.
24 Sjá Frank Furedi, Where have all the intellectuals gone. Confronting 21st century phil
istinism, bls. 42–43.
25 Sbr. skrif Derrida um háskóla, köllun, atvinnumennsku og loforð um sannleiksleit
í háskóla í Université sans condition. Upphaflegur titill á bók Derrida (sem var fyrst
fyrirlestur fluttur á ensku) var „The future of the profession or the University
without condition (thanks to the “Humanities” what could take place tomorrow)“.
Orðið „profession“ greinir Derrida í löngu máli í bók sinni og sérstaklega í orða-
sambandinu „profession of faith“ – „to profess“ þýðir m.a. að játast – líkt og um
trúarjátningu væri að ræða. Þegar Derrida talar um „profession“ hefur hann þessa
játningu í huga og yfirfærir hana á trúna á háskólann og það starf sem þar þarf að
hans mati að fara fram.