Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2014, Page 147
146
Athyglisvert er að frá upphafi hafa gagnrýnendur bent á tengsl
Straumrofs við kenningar Freuds. Skömmu eftir frumsýningu skrifaði
Ragnar Kvaran grein þar sem hann heldur því fram að þungamiðju verks-
ins sé að finna í umfjöllun þess um dulvitundina og bendir jafnframt á
að Straumrof sé fyrsta íslenska leikverkið sem með beinum hætti innleiði
kenningar sálgreiningarinnar.117 Þetta má til sanns vegar færa og samræða
textans við sálgreiningu er stundum gerð greinileg með meðvituðum og
leikandi hætti eins og þegar Loftur segir á einum stað, sem telja má tilvísun
til þess hvernig fortíðin er aldrei „kveðin“ niður í sálgreiningunni heldur
umbreytist í reynslubanka í dulvitundinni, þaðan sem hún kann að „sækja“
að vitundinni með ókennilegum hætti, að draugagangur sé „nú hvergi
nema í sjálfum manni“.118 Það er hins vegar í síðverkum Freuds sem hug-
myndir koma fram sem setja má í samhengi við vangaveltur Webers um
járnbúrið.
Í Das Unbehagen in der Kultur (Undir oki siðmenningar, 1930) tengir
Freud átakasvæði mannshugans við félagslegt umhverfi nútímans og bend-
ir á að hugsjónir um frelsi og þráin eftir vellíðan og útrás fyrir hvatir
(þrá sem mótast í senn af vitsmunalegum ferlum og dulvituðum) lendi í
sífellt óþyrmilegri árekstri við félagslega og siðferðilega skilyrðingu eftir
því sem menningin nútímavæðist og verður flóknari. Bælingarþörfin og
nauðsyn þess að upphefja og jafnframt dulbúa orku hvatalífsins verða
með öðrum orðum meira knýjandi eftir því sem siðmenningin verður sið-
samari, regluverkið flóknara og ögunarkerfin áhrifameiri. Vistrými ein-
staklingsins og þær andlegu lendur sem menningin skapar fyrir þroska
hugverunnar skreppa viðstöðulaust saman þangað til að upphafningin,
bælingin og frestunin sem krafist er hætta að vera „gagnleg“ – hætta að
snúast um langtímahagsmuni – heldur snúast um endurframleiðslu á eigin
formgerð. Vanlíðanin sem þá brýst fram verður svo ofsafengin að Freud
tengir hana dauðahvötinni með beinum hætti: „þegar skoðuð eru markmið
menningarviðleitni og þær aðferðir, sem hún beitir, þá [hlýtur] maður að
komast að þeirri niðurstöðu, að allt stritið sé unnið fyrir gýg og að árang-
urinn verði ekki annað en ástand sem einstaklingnum verði óbærilegt.“119
117 Ragnar E. Kvaran, „Straumrof“, bls. 3. Undir þetta tekur Peter Hallberg í Húsi
skáldsins og þótt fræðileg umræða um Straumrof hafi verið af skornum skammti er
óhætt að telja tenginguna við Freud grunnstef í túlkunum á verkinu.
118 Halldór Laxness, Straumrof, bls. 57.
119 Sigmund Freud, Undir oki siðmenningar, þýð. Sigurjón Björnsson, Reykjavík: Hið
íslenzka bókmenntafélag, 1990, bls. 83 [þýðingu örlítið hnikað til].
BJöRn ÞóR vilHJálmSSon