Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2015, Qupperneq 7
6
um verðmætum. Austen er í senn lífsgúru og leiðbeinandi lesendanna og
stóra viðmiðið verður líf í Jane.
Ritgerð Auðar Aðalsteinsdóttur, Bókmenntagagnrýni á almannavett-
vangi. Vald og virkni ritdóma á íslensku bókmenntasviði, verður varin á næst-
unni og er á sviði almennrar bókmenntafræði. Ritgerðin fjallar um vald
ritdómara og virkni ritdóma á íslensku bókmenntasviði sem og í alþjóð-
legu samhengi, allt frá upphafi fjölmiðlunar til dagsins í dag. Sýnt er fram
á að vald ritdómarans er ætíð ótraust og að hann á sífellt á hættu að vera
sakaður um að misnota það, enda felst þetta vald í að rofin eru mörk hinna
ýmsu samfélagssviða og hefðbundinna andstæðupara eins og fræðaheims
og fjölmiðla, lista og fræða, fræða og afþreyingar, hins persónulega og
almannavettvangs, fagurfræði og pólitíkur, listar og markaðar, réttmætrar
valdbeitingar og stjórnleysis. Í grein Auðar hér, „Á slóðum hjartalausra
fræðinga – tilfinningar og fræði í ritdómum 20. aldar“ fjallar Auður um
núninginn sem myndast á síðustu öld milli alþýðlegrar bókmenntaumræðu
og sérfræðitungumáls bókmenntafræðinganna.
Ásdís Sigmundsdóttir varði doktorsritgerð sína í almennri bókmennta-
fræði 18. maí 2015, en ritgerðin heitir Building and Rebuilding the Palace
of Pleasure. Translation and Rewriting in Early Modern England. Þar fjallar
Ásdís um safn þýddra nóvella sem William Painter tók saman á árunum
1566–1567 og nefndi Palace of Pleasure. Hún greinir stöðu ritsafnsins í
bókmenntakerfi sextándu aldar á Englandi og hvernig það var notað af
höfundum í meginbókmenntagreinunum þremur, prósa, ljóðlist og leik-
verkum. Í rannsókninni er lögð áhersla á að kanna verkið í heild og sýna
hvaða aðferðum höfundurinn beitir til að gera það gjaldgengt innan síns
nýja samhengis en það kynnti nýja bókmenntagrein, nóvelluna, í Englandi.
Rannsóknin sýnir einnig hvernig endurritanir á nóvellunum innlima og
aðlaga hugmyndir sem finna má í þeim þannig að þær eigi erindi við nýja
lesendur/áhorfendur en hafna um leið hinum erlendu rótum. Í ritgerð-
inni eru færð rök fyrir því að þetta hafi verið mikilvægur þáttur í því að
gera enskar bókmenntir miðlægari í evrópsku samhengi. Grein Ásdísar,
„Höll ánægju og gagnsemi. Um innkomu Palace of Pleasure eftir William
Painter í bókmenntakerfi 16. aldar á Englandi“ varpar ljósi á uppbyggingu
safnritsins og sýnir hvernig höfundurinn leitast við að gera það gjaldgengt
í sínu nýja umhverfi.
Jakob Guðmundur Rúnarsson varði ritgerð sína Einhyggja, þróun og
framfarir. Heimspeki Ágústs H. Bjarnasonar 20. apríl síðastliðinn. Jakob
GUÐNI ELÍSSON OG JÓN ÓLAFSSON