Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2015, Page 15
14
Ágústs til Sigurðar leiða í ljós að hann var alls ekki ánægður með annan
árgang Iðunnar og mat framlag Einars H. Kvaran ekki mikils og virðist
hreinlega hafa hlakkað til að losna við hann og fá fullt vald yfir ritstjórn
blaðsins. Hann gaf hinsvegar ekki strax frá sér þá hugmynd að fá Sigurð
til liðs við sig og bauð honum um vorið 1917 að „vera með á blaðinu“.
Þá þegar voru áskrifendurnir orðnir fleiri en 1800 og Ágúst hafði einsett
sér að reyna að gera Iðunni að „besta og þarfasta“ tímariti landsins.16 Ekki
fór svo að Sigurður tæki þátt í útgáfu eða ritstjórn Iðunnar með Ágústi og
hann lét þau orð falla í bréfi til Sigurðar í kjölfarið að hann yndi því vel að
vera einn um útgáfuna og ritstjórnina.17
Ágúst hafði því veg og vanda af útgáfu 1.–7. árgangs Iðunnar árin 1915–
23. Á þeim tíma voru fjögur tölublöð í hverjum árgangi. Tvö fyrri tölu-
blöðin voru gjarnan gefin út samtímis að hausti en hið þriðja um jólaleytið
og hið síðasta um vorið. Tímaritið var bæði vinsælt og útbreitt. Undir lok
útgáfu 4. árgangsins voru fastir kaupendur orðnir á þriðja þúsund.18 Því
var síðar fleygt á opinberum vettvangi að eitthvað af þessari tiltölulega
skjótu velgengni hefði mátt rekja til þeirra vinsælda sem „gamla Iðunn“
hefði notið á sínum tíma.19
Fyrstu heftin hlutu jákvæða dóma. Í Eimreiðinni var Iðunni lýst sem
skemmtilegu, fróðlegu og fjölbreyttu tímariti sem væri fullt tilefni til að
óska langra lífdaga.20 Í blaðinu Þjóðstefnu var því haldið fram strax á fyrsta
útgáfuári Iðunnar að hún gerði „tilkall til þess að vera besta tímaritið sem
kemur út á Íslandi“.21 Þessar jákvæðu viðtökur náðu alla leið til Vesturheims
en í Heimskringlu þann 23. mars 1916 birtist sérstök tilkynning þess efnis
að Iðunn væri uppseld hjá seljandanum í Winnipeg.22
Þegar Símon Jóh. Ágústsson leit yfir ævistarf Ágústs árið 1952 lýsti
hann ritstjórnarstíl hans, bæði við Iðunni og Vöku, sem „alþýðlegum og
fræðandi“, og það hefði átt mikilvægan þátt í því að gera Iðunni að einu
16 Lbs. 10 NF, Bréfasafn Sigurðar Nordal, bréf ÁHB, 14. apríl 1917.
17 Lbs. 10 NF, Bréfasafn Sigurðar Nordal, bréf ÁHB, 17. júlí 1917.
18 Ágúst H. Bjarnason, „Tilkynning frá ritstjóra“, Iðunn, 4/1918–19, ritstj. Ágúst H.
Bjarnason, bls. 328.
19 [G-m], „Hitt og þetta. Eftir bónda í grennd við Rvk“, Nýja Dagblaðið, 23. október
1936, bls. 2.
20 Valtýr Guðmundsson, „[Án titils]“, Eimreiðin, 1/1916, ritstj. Valtýr Guðmundsson,
bls. 72–3.
21 [St.], „Ritfregn“, Þjóðstefna, 12. október 1916, bls. 1–2., bls. 2.
22 [NN], Heimskringla, 23. mars 1916, bls. 8. Sú staðreynd þarf nú reyndar ekki að
segja mikið um raunverulegan fjölda seldra eintaka.
Jakob GuðmunduR RúnaRsson