Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2015, Síða 29
28
runninn.65 Þessi afstaða undirstrikar að þau einkenni íhaldssemi og þjóð-
ernishyggju sem má greina í fjölmörgum textum Ágústs jafngilda því ekki
að hann hafi litið framhjá hinum pólitískum veruleika og stéttaskiptingu
íslensks samfélags. Því til stuðnings má einnig benda á grein hans „Ný
þingskipan“ (1919) þar sem hann lagði til að stjórnskipan landsins yrði
breytt með þeim hætti að efri deild Alþingis yrði skipuð samkvæmt „stétta-
kjöri“, þar sem hver stétt fengi fimm fulltrúa.66
„Heimsmyndin nýja“
Metnaður Ágústs til að kynna fyrir lesendum sínum nýjan hugsunarhátt,
ný viðmið, nýjan mannskilning og nýja heimsmynd er hvergi skýrari á
síðum Iðunnar en í greinaröðinni „Heimsmyndin nýja“ sem birtist í fjórum
fyrstu árgöngunum og samanstóð af sex greinum þar sem leitast var við að
draga upp heildstæða mynd af uppruna, gerð, og þróun veruleikans í vís-
indalegu ljósi, frá efni, til lífs og loks anda. Í greinunum er teflt fram nýrri
heimsmynd á grundvelli vísindalegra rannsókna gegn þeirri heimsmynd
sem skiptir heiminum í lifandi og dauða hluti og lifandi verum í skynlausar
og skyni gæddar. Sú heimsmynd sem gerði ráð fyrir skýrt aðgreindum og
eðlisólíkum sviðum efnis, lífs og anda var fyrir borð borin því samkvæmt
hinni nýju heimsmynd vísindanna „þróast hvað fram af öðru í eðlilegri rás
viðburðanna, og að hinn sýnilegi heimur sé því ein óslitin samanhangandi
heild“. Hér er því grunnurinn lagður að því að kynna fyrir almennum les-
endum þær kenningar um verufræðilega einhyggju sem höfðu einkennt
heimspeki Ágústs frá upphafi. Hlutverk vísindanna var að kanna ólíka
þætti tilverunnar en það er heimspekinnar að móta úr þeirri þekkingu
„samstæða heild“ sem sýnir „líkt og í skuggsjá“ gerð og uppruna heims-
ins.67 Hugmyndin um þróun sem algilt lögmál sem tók til allrar tilver-
unnar, gegndi lykilhlutverki í þessu sambandi, sem og sú verufræðilega
orkuhyggja sem Ágúst hafði þegar gert grein fyrir bæði í Almennri sálar-
fræði (1916) og Almennri rökfræði (1913). Samkvæmt hinni nýju heims-
65 Ragnheiður Kristjánsdóttir, Nýtt fólk. Þjóðerni og íslensk verkalýðsstjórnmál 1901-
1944, Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2008, bls. 149–50, neðanmáls.
66 Ágúst H. Bjarnason, „Ný þingskipan“, Lögrétta 9. júlí 1919, bls. 1–2. (Samkvæmt
tillögu Ágústs yrðu skilgreindar fimm stéttir: I: Starfsmenn landsins, II: Kaup-
sýslumenn, III: Iðnaðar- og verkamenn, IV: Sjómenn og farmenn, V: Bændur og
búalið.)
67 Ágúst H. Bjarnason, „Heimsmyndin nýja“, Iðunn, 1/1915–16, ritstj. Einar H.
Kvaran, Ágúst H. Bjarnason og Jón Ólafsson, bls. 33–49, bls. 33.
Jakob GuðmunduR RúnaRsson