Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2015, Side 71
70
Þegar litið er í yfirlitsrit frá fyrri hluta tímabilsins kemur í ljós að þar
lifa aldagamlar hugmyndir um Ísland enn góðu lífi. Í A New Geographical
and Historical Grammar frá 1772 eftir Englendinginn Thomas Salmon
er fjallað um aðstæður Íslendinga, lífshætti þeirra og náttúru landsins.
Höfundur lýsir aðstæðum svo:
… þar þrífst vart nokkuð nema einiberjarunnar, birki og víðir;
brauðið sem neytt er hér er búið úr þurrkuðum fiski sem hefur
verið malaður; og kjötið sem er etið er af sauðum, fyrir utan kjöt af
björnum, úlfum og refum; en fiskur með rótum og jurtum er helsta
dálæti þeirra.12
Þessi umfjöllun virðist ekki vera mjög frábrugðin lýsingum frá 16. öld, hér
eru kynnt gamalkunn viðhorf sem höfðu verið ráðandi um aldir um nyrstu
svæði Evrópu. Talið var að lífshættir og aðstæður væru svipaðar í stórum
dráttum í öllum löndum þess svæðis: Að þau væru nánast óbyggileg: Þar
með talið voru bæði Ísland og Grænland.
Þegar Englendingurinn John Barrow kom til Íslands um miðjan fjórða
áratug 19. aldar sá hann margt athugavert við lífshætti landsmanna; eftir för
sína skrifaði hann bókina A Visit to Iceland sem kom út árið 1835. Honum
fannst t.d. húsakynni almennings í Reykjavík minna mjög á hreysi Íra. Þeir
hefðu reyndar verið fyrstir manna til að koma til Íslands en nú minnti ekk-
ert á það lengur nema aumir kofar, fullir af reyk, óreiðu og óþef! Barrow
nýtti flest tækifæri til þess að draga fram skoðanir sínar á Írum sem hann
hafði ekki háar hugmyndir um.13
Barrow setti Íslendinga ítrekað í ákveðið samhengi. Þeir væru afar sein-
látir og hefðu verið óratíma að koma sér af stað í ferðalög. Þó var frágang-
ur á farangri hans að hans sögn hvorki erfiður né flókinn. Algengt var að
lýsa framandi þjóðum á þennan hátt, t.d. „Hottentottum“ í Afríku sem
væru bæði latir og seinir.14 Barrow lýsti Íslendingum því sem andstæðu
sinni, þeir líktust Írum og væru latir og huglausir; hann djarfur og snögg-
12 Thomas Salmon, A New Geographical and Historical Grammar; Containing the True
Astronomical and Geographical Knowledge of the Terraqueous Globe: And also the Modern
State of the Several Kingdoms of the World [etc.], London: W. Johnston, 1772, bls.
256–257.
13 John Barrow, A Visit to Iceland, by Way of Tronyem, in the „Flower of Yarrow“ Yacht,
in the Summer of 1834, London: John Murray, 1835, bls. 114–117.
14 M.a. Mary Louise Pratt, Imperial Eyes. Travel Writing and Transculturation, New
york: Routledge, 2008, bls. 44.
sumaRliði R. ísleifsson