Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2015, Side 91
90
táknið Austen, en skáldkonan er meginviðfangsefnið í skáldsögu Karenar
Joy Fowler, Jane Austen leshringnum. Þar hittast fimm konur og einn karl
til þess að ræða sögur Austen hverja á eftir annarri, en sögunum er jafn-
framt ætlað að varpa ljósi á líf persónanna í bók Fowlers. Lesturinn hefur
umbreytingar í för með sér, hann er félagsleg athöfn sem sameinar les-
endurna sex, opnar huga þeirra og þeir öðlast nægilegt hugrekki til þess
að hleypa ástinni inn í líf sitt. Lesendurnir lesa þannig út frá sjálfum sér
og leggja undir allt sitt líf í lestri sínum. Í bókunum spegla þeir sig, hugsa
um atburði úr æsku sinni, mótun þeirra frá börnum til fullorðinna ein-
staklinga. Þótt ekki sé víst að lesturinn breyti persónunum, eða geri þær
sáttari við fortíð sína, opnar hann þær, gerir þær djarfari og vekur upp
með þeim langanir til þess að breyta lífi sínu á einhvern hátt eða taka nýjar
ákvarðarnir.
Rödd hennar leiddi mig áfram
Kvikmyndin Miss Austen Regrets segir frá sambandi Jane Austen við eina af
eftirlætisfrænkum sínum, Fanny Knight, en hún var elsta dóttir Edwards
bróður Jane. Myndin byggir m.a. á bréfasamskiptum Jane og Fanny, þar
sem Jane ræðir við frænku sína um hugsanlega mannsefnið sitt, herra John
Plumptre. Í Miss Austen Regrets leitar Fanny til frænku sinnar sem sérfræð-
ings í hjúskaparmiðlun og ástarmálum þegar hún veit ekki hvort hún eigi
að giftast herra Plumptre.
Miss Austen Regrets fangar vel hugmyndina um skáldkonuna sem ráð-
gjafa og hjúskaparmiðlara, en það minni á vaxandi vinsældum að fagna í
ýmsum Austen endurritunum eins og áður sagði. Það hentar jafnframt
handritshöfundinum, Gwyneth Hughes, vel að sögutíminn skuli vera
síðustu tvö árin í lífi Austen, en á þeim tíma lýkur skáldkonan við Emmu
og gefur hana út. Engin persóna Austen er jafn upptekin við að para saman
ólíka einstaklinga og samnefnd söguhetja skáldsögunnar, en þótt Emma
hafi ríkt ímyndunarafl og hafi gaman af því að reyna að koma fólkinu í
kringum sig í hjónaband býr hún lengst af ekki yfir skynsemi höfundar
síns.2
Líkt og bréfið til Fannyar ber vitni um mælir Austen með því að til-
finningar og skynsemi fari saman. Í myndinni virðist hún jafnvel vera
2 Ég ræði þetta sérstaklega í grein minni „Er Emma sjálfshjálparhöfundur? Jane
Austen og kvennamenning“, Skírnir vor 2013, bls. 196–214.
ALDA BJÖRK VALDIMARSDÓTTIR