Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2015, Síða 108
107
vaknaði lá hún í faðmi Corinne. Það var ómótstæðilegt að kynnast á þenn-
an hátt.“59 Þessi atburðarás minnir um margt á það hvernig Marianne
kynntist sínum Willoughby sem aðstoðar hana inn úr rigningunni þegar
hún snýr sig á fæti. En líkt og gerðist með Willoughby fer Corinne illa
með Allegru og þær eru hættar saman þegar sagan hefst.
Það er lesandi Jane Austen leshringsins sem brúar bilið milli persóna sög-
unnar og persóna Austen, en vitanlega með hjálp frá Fowler. Sú bók sem
er lesin hverju sinni varpar ljósi á persónuna sem heldur fundinn. Þannig
lesa þau Mansfield Park hjá Prudie, Persuasion hjá Sylvíu og svo framvegis.
Lesandinn fær þannig tilfinningu fyrir því hvernig persónur bókarinnar
samsama sig ákveðnum persónum úr sögum Austen. Hann skilur betur
hvers vegna þær vilja eigna sér ákveðna bók með því að lesa hana heima
hjá sér og sér áhrifin sem bókin kann að hafa haft á persónuna. Á sama hátt
skyggnast persónur Jane Austen leshringsins inn í hugarfylgsni félaga sinna
með hjálp bóka Austen.
Juliette Wells vitnar í Ritu Felski og bók hennar Uses of Literature en
þar spyr Felski sig þeirrar spurningar hvað það merki að sjá sjálfa sig í
bók: „Skyndilega án viðvörunar, birtist leiftur hins kunnuga sem brúar
bilið milli textans og lesandans. […] Ég er ávörpuð, dregin fram, gert að
greina frá sjálfri mér. Ég get ekki annað en séð sjálfa mig í því sem ég les.
Óneitanlega hefur eitthvað breyst, sjónarhorn mitt er annað, ég sé það
sem ég sá ekki áður.“60 Wells tekur undir með Felski og leggur áherslu á að
fræðimenn og áhugalesendur séu ekki endilega svo ólíkir í hægindastóln-
um heima hjá sér. Sem lesendur séu þeir á valdi textans sem dragi þá að
sér og fangi. Felski hvetur fræðimenn til að vera sér meðvitaða um hvernig
þeir séu varnarlausir gagnvart textanum og ofurseldir honum.61
Tengslin á milli Prudie og Fanny Price myndast svo dæmi sé tekið í
senn innan leshringsins og hjá lesendum skáldsögunnar. Dýpstum skiln-
ingi nær sá lesandi Jane Austen leshringsins sem þekkir vel til verka Austen,
en ætla má að þar sé að finna hinn upprunalega markhóp þótt hann hafi
með vaxandi vinsældum sögunnar orðið mun stærri. Frönskukennarinn
Prudie heldur fundinn þegar þær lesa Mansfield Park og margt í fari henn-
ar er hliðstætt lýsingum Austen á Fanny Price. Líkt og Fanny er hún föl
og fíngerð í útliti: „Prudie var með sérstakt andlit, djúpstæð augu, mjög
59 Sama heimild, bls. 52.
60 Juliette Wells, Everybody’s Jane: Austen in the Popular Imagination, bls. 68. Wells
vitnar hér í Ritu Felski, Uses of Literature, Malden, MA: Blackwell, 2008, bls. 23.
61 Sama heimild, bls. 68–69. Sjá einnig Rita Felski, Uses of Literature, bls. 54–55.
VISKA JANE AUSTEN OG FERÐ LESANDANS