Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2015, Qupperneq 137
136
Skáldskapur getur samkvæmt þessu ekki lotið neinni forsögn nema þeirri
þjóðlegu og nokkurrar tortryggni gætir í garð vísindalegrar hugsunar um
bókmenntir er Indriði bendir á að þótt „bækur um samsetningu verka“
geti „verið mjög þarfar til skilnings á því, sem er illa saman sett og lítils
virði sem listaverk“ verði þær „þó aldrei til annars en auðvelda almenna
greiningu á hinum ýmsu efnisþáttum skáldverks“ og snerti lítið starf höf-
undanna sem byggi „ekki verk sín á tómum mælistikum“.75
Ólafur Jónsson lætur í ljós svipað viðhorf, að vísindalegar „mælistik-
ur“ dugi ekki einar og sér þegar kemur að skáldskap, í ritdómi um bækur
Njarðar P. Njarðvík, Eðlisþættir skáldsögunnar og Saga, leikrit, ljóð. Þótt
Ólafur telji að bækurnar lýsi aðferðum „sem vel geti notast nemendum
og kennurum við vinnu þeirra, með aðgát og gagnrýni, það langt sem
þær ná“ minnir hann jafnframt á þá afstöðu Njarðar að grundvöllur góðr-
ar sögugreiningar felist „í samverkan hlutlægrar þekkingar og næmleika
huglægrar túlkunar“, og bætir því við að hann telji að í verki fléttist hug-
lægni og hlutlægni „miklu nánar saman í bókmenntagagnrýni en ummæli
Njarðar gefa til kynna“.76 Gunnar Stefánsson gerir takmarkanir þess „að
einbeita sér að hlutdrægri athugun“ á bókmenntum einnig að umtalsefni
í ritdómi um Eðlisþætti skáldsögunnar. Vísar Gunnar til dæmis í þá fullyrð-
ingu Njarðar að í skáldskap verði leyndardómur lifandi persónusköpunar
„vitanlega aldrei skýrður“ þótt gera megi „grein fyrir helstu aðferðum og
möguleikum sem höfundur getur valið um við mannlýsingar“. Gunnar
tekur þó eindregnari afstöðu en Indriði með gildi vísindalegrar nálgunar
er hann segir að það sé „fullkomið aukaatriði“ hvort bók hljóti lof eða last
gagnrýnanda og vísar í þau orð Njarðar að það sem mestu máli skiptir í
bókmenntagreiningu sé að skjóta stoðum undir persónulega túlkun með
hlutlægri könnun: „Sé gagnrýnandinn ekki fær um það, er mat hans einskis
vert.“77
Ólafur og Gunnar beina athyglinni að togstreitu milli kröfunnar um
huglægt, persónulegt mat gagnrýnandans, byggt á persónulegri upplif-
un, og kröfunnar um hlutlæg viðmið sem hægt sé að byggja bókmennta-
rannsóknir á. Hér komum við aftur að grundvellinum sem lagður var af
heimspekingum á borð við Hume og Kant sem vildu sýna fram á að feg-
75 Sama rit, bls. 9.
76 Ólafur Jónsson, ritdómur um Sögu, leikrit, ljóð og Eðlisþætti skáldsögunnar eftir Njörð
P. Njarðvík, Skírnir, 1/1978, bls. 230–236, hér bls. 232–233 og 236.
77 Gunnar Stefánsson, „Að lesa sögur“, ritdómur um Eðlisþætti skáldsögunnar eftir
Njörð P. Njarðvík, Tíminn, 4. desember 1975, bls. 8.
AUÐUR AÐALSTEINSDÓTTIR