Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2015, Qupperneq 138
137
urðardómar gætu haft almennt gildi, en væru ekki bara persónubundin
upplifun; „að réttur og ótvíræður mælikvarði [á fegurð] sé til einhvers
staðar, nefnilega raunveruleg tilvera og staðreynd“, eins og Hume orðar
það.78 Kant telur að fegurðardómar geti haft almennt gildi, einmitt vegna
þess að þeir hafi þá sérstöðu að vera bæði huglægir og ákvarðandi í senn.
Forsenda þess sé ákveðið hagsmunaleysi dómarans, því ef fegurðardómar
byggi á hagsmunalausri velþóknun hljóti þeir að hvíla á einhverjum grund-
vallareiginleika sem okkur er öllum sameiginlegur (þ. Gemeinsinn eða lat.
sensus communis).79
Enn í dag vekja fræðikenningar sem taldar eru ógna þessari hugmynd
um sammannlegan, huglægan og tilfinningatengdan grundvöll ásakanir um
andlausa menntamenn sem misnoti fræðin og ógni ekki aðeins bókmennt-
unum heldur raunverulegum skilningi á mannlegri tilvist. Árið 1987 segir
Berglind Gunnarsdóttir til dæmis að vísindaleg rökhugsun sé „takmörk-
uð“, hún greini „ekki öngstræti sálarlífsins“ og þvingi „listina út í horn“.
Líkt og „bókmenntamaðurinn“ Allen Tate telur hún að nútímamaðurinn sé
„ekki heilsteyptur“ og segir það „sök meðal annars vísindahyggjunnar sem
hefur svipt efnið sálinni og sálina efninu“. Hún vekur jafnframt upp ímynd
brjálaða vísindamannsins og hættulegra, sálarlausra fræða hans þegar hún
segir að „hörmulegastur“ sé gagnrýnandinn „er hann pakkar þröngsýn-
inni inn í búnað annarlegrar heiftar og ofstækis og bindur síðan utan um
allt saman með ástlausri sýn sinni á mannlegan veruleika og viðleitni“.80
Árið 2012 dregur Friðrik Erlingsson, þýðandi söngleiksins Vesalinganna,
upp svipaða mynd í athugasemdum við gagnrýni Maríu Kristjánsdóttur og
Símonar Birgissonar á verkið í sjónvarpsþættinum Djöflaeyjunni á RÚV. Í
grein Friðriks eru gagnrýnendur og almenningur andstæður og andstæð-
ingar. Hann segir að á meðan „gagnrýnendur og menningarpáfar um ver-
öld víða“ hafi frá því það kom út „hneykslast, urrað, hvæst og öskrað yfir
þessu verki“ hafi „hinir almennu lesendur sögunnar“ og síðar leikhúsgestir
„tekið þessu verki fagnandi, tekið ástfóstri við persónurnar, tónlistina og
fundið sterkan hljómgrunn með boðskap sögunnar“. Ástæðan er sú, að
78 David Hume, „Um mælikvarðann á smekk“, bls. 37.
79 Þetta þýðir að ekki munu allir samþykkja slíka dóma heldur ganga gagnrýnendur
út frá því að allir ættu að gera það; að hægt sé að krefjast altæks samþykkis um
fegurðardóma eins og hlutlæg lögmál. Immanuel Kant, Kritik der Urteilskraft, bls.
48–49, 53–54, 81–82, 141 og 143–144.
80 Berglind Gunnarsdóttir, „Er ljóðið glataður tími? Til varnar skáldskapnum“,
Tímarit Máls og menningar, 3/1987, bls. 268-273, hér bls. 268, 269 og 272.
Á SLÓÐUM HJARTALAUSRA FRÆÐINGA