Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2015, Page 140
139
hún til dæmis birtist í nokkrum fræðigreinum í Tímariti Máls og menn-
ingar og Skírni. Þar greindu fræðimenn á borð við Helgu Kress, Bergljótu
Kristjánsdóttur, Matthías Viðar Sæmundsson og Dagnýju Kristjánsdóttur
kanónísk verk eins og Gerplu Halldórs Laxness og „Grasaferð“ Jónasar
Hallgrímssonar með því að beita „sálgreiningu í anda Freuds, Lacans
og Kristevu“, rýna í „stéttamóthverfur og átök andstæðra afla að hætti
marxista“ og fylgja almennt anda póststrúktúralista á borð við Foucault
eða „strúktúralista og sporgöngumanna þeirra“, eins og Guðmundur
Andri Thorsson orðar það sem ritstjóri Tímarits Máls og menningar árið
1988.85 Örn Ólafsson var einn af þeim sem gagnrýndu túlkanir Dagnýjar
Kristjánsdóttur, Soffíu Auðar Birgisdóttur, Bergljótar Kristjánsdóttur og
Helgu Kress fyrir að þjóna ákveðinni teoríu fremur en að fylgja forsendum
verksins sjálfs eða jafnvel heilbrigðri skynsemi.86 Guðmundur Andri and-
mælti á svipaðan hátt túlkun Helgu Kress á Tímaþjófnum, þar sem hann
telur að gæti „ofríkis gagnvart textanum, til að láta hann ganga upp í kenn-
ingunni um „hvað verkið fjalli í rauninni um““.87 Árið 1989 segir Halldór
Guðmundsson það hægan vanda „núorðið að skrifa bókmenntaritgerð
sem í raun er ekki annað en endursögn á franska sálfræðingnum Lacan
með smáviðbót frá bókmenntafræðingnum Kristevu og taka svo eitthvert
bókmenntaverk sem dæmi“.88 Kolbrún Bergþórsdóttir tekur undir það við-
horf árið 1991. Hún segir að „teóretískri umfjöllun eða sundurgreinandi
leshætti“ hafi undanfarið „verið beitt af fullmiklum ákafa og oft á fremur
yfirborðskenndan hátt“; verkin hafi „ekki verið lögð til grundvallar túlk-
uninni heldur notuð sem eins konar dæmasöfn, fyrirframgefinni kenningu
til vegsömunar“.89 Og sama ár segir Þórarinn Eldjárn í viðtali að umfjöll-
un Helgu Kress um Tímaþjófinn hafi verið „ágæt grein að því leyti að það
var eins og verið væri að keyra ýmsar teoríur sem settar hafa verið fram hér
og hvar í útlöndum“ og skáldsagan sem um ræðir „notuð sem eins konar
85 Guðmundur Andri Thorsson, „Frá ritstjóra“, Tímarit Máls og menningar, 3/1988,
bls. 262.
86 Örn Ólafsson, „Bókmenntatúlkanir“, Tímarit Máls og menningar, 1/1989, bls. 5–11,
hér bls. 8–10.
87 Guðmundur Andri Thorsson, „Eilífur kallar / kvenleikinn oss“, Tímarit Máls og
menningar, 2/1988, bls. 187-195, hér bls. 188.
88 Halldór Guðmundsson, „Orðin og efinn. Til varnar bókmenntasögu“, Tímarit
Máls og menningar, 2/1989, bls. 191–204, hér bls. 198-199.
89 Kolbrún Bergþórsdóttir, „Jónas Hallgrímsson á tímum Júlíu Kristevu“, Tímarit
Máls og menningar, 3/1991, bls. 27–41, hér bls. 27–28.
Á SLÓÐUM HJARTALAUSRA FRÆÐINGA