Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2015, Side 162
161
kom út í febrúar 1962 hóf Morgunblaðið, þar sem Valtýr Stefánsson var enn
einn af ritstjórum, að gefa út Lesbókina í breyttri mynd. Þetta var gert að
frumkvæði Matthíasar Johannessen, sem þá hafði setið í þrjú ár sem einn
af ritstjórum Morgunblaðsins.43 Lesbókinni var breytt úr almennu helgar-
blaði með áherslu á þjóðlegan fróðleik í sérhæfðara menningartímarit sem
beint var að ungu fólki og menntafólki – helsta markhópi Birtings. Á fyrstu
árunum eftir breytinguna störfuðu við Lesbókina Sigurður A. Magnússon,
Haraldur Hamar, Ingimar Erlendur Sigurðsson, Jón Hnefill Aðalsteinsson
og Svava Jakobsdóttir. Flest þeirra áttu eftir að marka spor í íslenskt bók-
mennta- og menningarlandslag. Svava var til að mynda einn af þeim rit-
höfundum sem áttu þátt í módernískum umbrotum í íslenskri sagnagerð
á sjöunda ára tugnum, auk þess að vera í fararbroddi meðal róttækra fem-
ínískra höfunda á Íslandi.44
Hin „nýja“ Lesbók gæti einnig hafa kallað á það að í sama ritstjórn-
arpistli er því lýst yfir að nú þurfi „að stórauka útbreiðslu Birtings“ (62).
Það sé ekki nóg að hann hafi aðeins áhrif á fámennan hóp:
Hér eftir þarf Birtingur að komast fyrir augu allra sem áhuga hafa
á íslenzkum bókmenntum, íslenzkri menningu, íslenzku þjóðfrelsi.
Þess vegna skorum við á kaupendur Birtings að gera nú þegar
skyndiáhlaup og sýna hug sinn til hans með því að útvega einn nýjan
kaupanda hver í þessari viku. (62)
Þetta var síðasta ákall Birtingsmanna um fjölgun áskrifenda. Upp úr þessu
fara ritstjórnargreinar að strjálast. Sú næsta birtist í 1.–4. hefti 1964 sem
kom ekki út fyrr en um miðjan júlí 1965. Í athugasemd Einars Braga til
lesenda aftast í heftinu er beðist afsökunar á seinaganginum sem skýrist af
því að ritstjórnarmenn hafi ekki getað sinnt ritinu sem skyldi vegna ann-
arra starfa. Það hafi jafnvel sýnst „horfa fremur dauflega um „framhalds-
líf“ Birtings“ en útgefendum hafi orðið því „ljósara sem lengra frá leið, að
án Birtings [væri] alls ekki hægt að vera“ og fjöldi kaupenda hafi „á sömu
43 Þröstur Helgason, „Lesbókin í 80 ár“, Lesbók Morgunblaðsins 1. október 2005, bls.
4–5.
44 Sjá t.d. Ástráð Eysteinsson, „Að gefa í boðhætti. Módernismi og kvennapólitík í Gefið
hvort öðru … eftir Svövu Jakobsdóttur“, Umbrot. Bókmenntir og nútími, Reykjavík: Há-
skólaútgáfan, 1999, bls. 122–136 og Dagnýju Kristjánsdóttur, „Af texta ertu komin. Um
hefð og textatengsl í verkum Svövu Jakobsdóttur“, Kona með spegil. Svava Jakobsdóttir og
verk hennar, ritstj. Ármann Jakobsson, Reykjavík: JPV, 2005, bls. 101–115. Ástráður talar
um að Svava sé viðurkennd sem einn helsti módernisti í íslenskri sagnalist og höfundur
er fjalli á „ögrandi hátt um „kvenlega reynslu“ og jafnvel „kvenvitund““ (bls. 122).
MÓDERNÍSKA TÍMARITIÐ BIRTINGUR